Ég býð mig nú fram fyrir D-listann í sveitarstjórnarkosningum sem haldnar verða 14. maí næstkomandi. Það geri ég vegna þess að ég er stoltur af þeim árangri sem hefur náðst seinustu fjögur ár. Ég vil leggja mitt af mörkum til að tryggja áfram þá sterku forystu sem við höfum notið og taka þátt í að móta sveitarfélagið okkar og þá ekki síst það sem snýr að íþróttum, forvörnum og æskulýðsmálum. Ég vil að við verðum heilsueflandi samfélag þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi til að stuðla að betri andlegri og líkamlegri heilsu.
Þorlákshöfn er íþróttabær og árangur okkar íþróttafólks er einstakur. Sömu sögu má segja um allt sveitarfélagið, það hreinlega iðar af öflugu íþróttafólki. Körfubolti, fimleikar, hestasport, rafíþróttir, golf, mótorkross, fótbolti og svo margt fleira eru meðal þeirra greina sem er iðkuð við góðan árangur. Allir vita að íþrótta- og tómstundastarf er mikilvægur þáttur í forvarnarstarfi ungmenna og því er nauðsynlegt að tryggja öflugt starf á þessu sviði. Við erum stolt af því að geta með sanni sagt að aðstaða til íþróttaiðkunar hér er framúrskarandi og þarf hún að vera það því okkar fólk á ekkert annað skilið en aðeins það besta. Það þekki ég sem afreksmaður. Þá skiptir ekki minna máli hversu vel bæjarbúar og sveitarfélagið standa við bakið á okkur. Við erum nefnilega aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn og saman getum við yfirstígið allar þær hindranir sem standa frammi fyrir okkur.
Ég bið um umboð ykkar til að halda áfram að byggja upp íþróttabæinn okkar. Það vil ég gera með því til dæmis að styrkja íþróttafélögin til að ráða framkvæmdastjóra, bæta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar á veturnar og auka stuðning við barna og unglingastarf. Við verðum að skapa bestu mögulegar aðstæður fyrir börnin og ungmennin okkar til að blómstra því þau eru okkar næsta kynslóð. Ég vil líka efla almenningsíþróttir t.d. með áframhaldandi uppbyggingu reiðleiða, göngustíga og endurbótum á líkamsræktarsal sveitarfélagsins. Þá vil ég að ráðist verði sem fyrst í kaup á nýrri vatnsrennibraut og frekari uppbyggingu á útisvæði sundlaugarinnar. Einnig verðum við að halda áfram því öfluga verkefni að bjóða uppá heilsurækt fyrir 67 ára og eldri en vona ég að við getum gert ennþá betur þar.
Ég vil sem sagt berjast fyrir enn betra sveitarfélagi. Ég trúi því að það verði best gert með því að setja einfaldlega X við D.
Að lokum vil ég svo hvetja alla íbúa til að gera sér ferð til Grindavíkur í kvöld og styðja okkur Þórsara til sigurs.
Davíð Arnar Ágústsson
frambjóðandi í 7. sæti D-listans