Framboð D-lista hefur þegar kynnt þá einörðu afstöðu sína að falla ekki í gryfju átaka heldur að leggja verk sín í dóm kjósenda og kynna skýra framtíðarsýn. Það er gert af virðingu fyrir mótframbjóðendum sem og til að kasta ekki rýrð á það góða samfélag sem við eigum í Sveitarfélaginu Ölfusi. Þessa ákvörðun styðjum við.
Eftir sem áður er mikilvægt að leiðrétta þegar rangt er með farið, hvort sem slíkt útskýrist af misskilningi eða pólitískum vilja til að varpa rýrð á verk þeirra sem á undan hafa gengið. Þar sem við undirrituð erum nú að stíga úr framlínu viljum við leiðrétta þau rangindi, sem höfð eru eftir ónafngreindum „starfsmönnum“, að skort hafi upp á stuðning Sveitarfélagsins Ölfuss við Garðyrkjuskólann á Reykjum.
Hið sanna er að ítrekað hefur verið rætt um þessa hagsmuni á vettvangi bæjarstjórnar og annarra nefnda og ráða. Fundað hefur verið með ráðafólki, samráð átt við starfsmenn, leitað hefur verið til hagsmunaaðila og margt fleira. Þá hefur sveitarfélagið tekið þetta upp í samtali við fjölmiðla, á fundum með þingmönnum og fleira. Með einfaldri leit á netinu má staðfesta hið sanna hvað þetta varðar. Það sýnir myndin sem fylgir þessari grein.
Kristín Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi
Steinar Lúðvíksson, bæjarfulltrúi