Fræðslumálin eru stærsta verkefni allra sveitarfélaga. Það er staðreynd hvort sem litið er til rekstrarlegs umfangs þeirra eða mikilvægi þeirra fyrir samfélagið. Það er því nauðsynlegt að frambjóðendur þekki til þessara mála og láti þau sig varða. Málaflokkurinn er í sífelldri þróun í takt við örar samfélagsbreytingar og aukna þekkingu. Miklar kröfur eru gerðar til sveitarfélaganna og töluverðar áskoranir sem þau standa frammi fyrir á þessum vettvangi. Á sama tíma eru tækifærin mörg og spennandi tímar framundan.
Skólarnir hafa hafa notið góðs af
Sveitarfélagið okkar býr yfir mörgum góðum kostum. Hér eru kjöraðstæður til að ala upp börn og hér hefur undirrituðum alla tíð liðið vel. Við höfum fundið og upplifað kraftinn og samhuginn sem býr í samfélaginu og tekið þátt í þeirri miklu framþróun sem hefur orðið í áranna rás. Bærinn og allt hans umhverfi er okkur því mjög hugleikið. Ekki síst langar okkur að stuðla að því að unga fólkið okkar læri, skynji og upplifi samfélagið eins og við fengum að gera og fái tækifæri til að vinna að eigin hugviti og lausnum samfara því. Þeir sem hafa verið við stjórnvölinn hafa iðulega lagt sitt á vogarskálarnar til að vinna að uppbyggingu og farsæld í þágu okkar íbúanna. Það sama á við um meirihlutann sem nú er við stjórnvölinn og við í skólanum höfum sannarlega notið góðs af því þó alltaf sé svigrúm til að gera gott betra.
Skólinn þarf að stækka með bænum okkar
Á næsta kjörtímabili gerum við ráð fyrir að ljúka hönnun við stækkun grunnskólans í samstarfi við starfsmenn, foreldra og nemendur og ráðast í framkvæmdir um leið og þeirra verður þörf. Með tilkomu nýrrar viðbyggingar við grunnskólann gerum við ráð fyrir nýju rými fyrir frístund og félagsmiðstöðina í því skyni að hægt sé að samnýta aðstöðuna betur og auka samstarf og samráð þar á milli. Auk þess er það okkar vilji að huga sérstaklega að kennslurými og aðbúnaði með tilliti til nýsköpunar, list,- tækni- og verkgreina.
Stækkunin skapar tækifæri til skólaþróunar
List,- tækni- og verkgreinar eru mikilvægar greinar sem ýta undir skapandi hugsun og aukið hugvit auk þess sem möguleg samþætting þessara greina og annarra bóklegra greina er afar mikilvæg. Nútíma einstaklingur þarf að vera fær um að bregðast við ólíkum aðstæðum, skapandi og læs á umhverfi sitt. Styrkur hvers einstaklings og þar með samfélags felst í því hvernig hugur og hönd vinna saman enda hafa rannsóknir sýnt að slík vinna stuðlar að dýpri og merkingarbærari þekkingu. Að nemandi verði að þátttakanda fremur en viðtakanda í eigin menntun og fái tækifæri til að verða besta mögulega útgáfan af sjálfum sér. Það er okkar hlutverk að skapa umhverfi sem nærir og stuðlar að slíkri þekkingaröflun og hagnýtingu þekkingar í sátt við umhverfið. Í því skyni stendur hugur okkar jafnframt til að útbúa útikennslusvæði í nágrenni skólans.
Útikennslusvæði geta gengt mikilvægu hlutverki
Útikennslusvæði eru skilgreind sem svæði í náttúrunni þar sem fjölbreytt nám og kennsla getur átt sér stað. Útinám er jafnframt leið til þess að mæta mismunandi þörfum nemenda og við teljum mikilvægt að leita allra leiða til þess. Hugmyndin er sú að fá tiltekið svæði skilgreint sem útikennslusvæði og að nemendur taki þátt í að byggja upp svæði sem er aðgengilegt, náttúrulegt og nýtanlegt á umhverfisvænan hátt. Lögð yrði áhersla á að svæðið yrði til prýðis fyrir alla og myndi nýtast nemendum, kennurum og íbúum svæðisins jafnt til náms og leiks. Nemendur myndu taka virkan þátt í þessari uppbyggingu undir leiðsögn kennara og ábyrgðarmanna verkefnisins í góðu samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið. Útikennslusvæði kæmi til með að auka mjög möguleika og fjölbreytni til náms í bæði grunn- og leikskólunum okkar og ýta enn fremur undir virkni og sköpunargáfu nemenda.
Andleg og líkamleg heilsa er grunnurinn að velferð
Þrátt fyrir að umhverfi og aðbúnaður nemenda sé mikilvægur er alveg ljóst að góð geðheilsa og líðan er forsenda þess að finna tilgang með lífinu og meginstoð allra lífsgæða. Góð geðheilsa er einnig stór þáttur í því að einstaklingum sé gert kleift að vera virkir og skapandi þjóðfélagsþegnar. Það er því auðvelt að taka undir að andleg og líkamleg heilsa barna leggi grunninn að velferð þeirra í lífinu.
Við þekkjum mikilvægi snemmtækrar íhlutunar
Þar sem við lifum og hrærumst í umhverfi barna sjáum við vel hversu mikil þörf er á aðstoð sérfræðinga vegna andlegrar heilsu. Skólasamfélagið okkar tekur snemmtæka íhlutun alvarlega og vitum við vel hvaða árangur það getur gefið okkur. Í skólanum okkar búum við svo vel að ekki er beðið sérstaklega eftir greiningum áður en farið er að vinna með börnunum en hins vegar teljum við að efla megi sálfræðiþjónustu til þess að mæta börnunum enn betur. Margra vikna og jafnvel mánaða bið er eftir sálfræðiaðstoð og viljum við gjarnan stytta þann tíma með því að bjóða fram meiri aðstoð innan veggja skólans.
Gerum gott betra
Börnin eru grunnur samfélagsins og okkar hlutverk er að vernda þau og styðja til vaxtar og þroska. Við búum yfir framúrskarandi starfsfólki í skólunum okkar og þar er unnið faglegt og metnaðarfullt starf. Hlutverk sveitarfélagsins er að tryggja að aðbúnaður og tækjakostur sé ávallt með því besta sem völ er á og sá metnaður hefur sannarlega verið fyrir hendi þó alltaf sé svigrúm til að þróa og bæta. Tækifærin eru mörg og margvísleg og spennandi tímar framundan. Við frambjóðendur D-listans fögnum allri umræðu og góðum ábendingum um fræðslumálin enda þarf heilt samfélag til að ala upp barn. Við vonumst jafnframt til að hugmyndir okkar samræmist ykkar væntingum og bjóðum fram krafta okkar til að vinna vel í þágu barnanna okkar og skólasamfélagsins.
Erla Sif Markúsdóttir og Guðlaug Einarsdóttir,
Grunnskólakennarar og frambjóðendur í 4. og 5. sæti D-listans.