Hið fullkomna kjörtímabil

Nú þegar kjörtímabilið er að líða undir lok er nauðsynlegt að líta til baka yfir síðustu fjögur ár. Að sjálfsögðu langar öllum kjörnum fulltrúum sem fá traust og umboð íbúa að skila af sér hinu fullkomna kjörtímabili en eðli málsins samkvæmt er það ómögulegt. Ég er fullur af stolti yfir árangrinum en auðvitað er ýmislegt sem í baksýnisspeglinum hefði betur mátt fara. Eins og allir þekkja þá er gott að vera vitur eftir á en það sem skiptir mestu máli er að læra af mistökunum, halda áfram með það að markmiði að gera enn betur.

Staðan í dag

Staða Sveitarfélagsins Ölfuss er góð og með stækkun hafnarinnar, nýjum leikskóla, mikilli fjölgun íbúa og fleiru koma nýjar áskoranir og vaxtaverkir. Við verðum að læra ekki aðeins af okkar eigin mistökum heldur einnig annarra í kringum okkur og hugsa fram í tímann. Það þarf ekki margar rangar ákvarðanir til að hamingjuhraðlestin fari út af sporinu. Afkoma sveitarfélagsins er e.t.v. ekki eitthvað sem heldur vöku fyrir íbúum þess fyrr en skerða þarf þjónustu vegna slæmrar fjárhagslegrar stöðu og þegar ekki er hægt að ráðast í kostnaðarsamar framkvæmdir íbúum til hagsbóta. Ábyrgð kjörinna fulltrúa er mikil og vona ég að íbúar sveitarfélagsins taki undir með skoðun minni að kjörtímabilið hafi verið vel heppnað.

Hinn kjörni fulltrúi

Það er síður en svo sjálfsagt að fólk bjóði sig fram til þess samfélagslega starfs að taka sæti sem kjörinn fulltrúi í bæjarstjórn eða nefnd. Slíkri ákvörðun fylgir alltaf álag enda eru einstaklingar í umhverfi viðkomandi sem ýmist eru með eða á móti ákvörðun um framboð. Það er sérstaklega snúið í smærri sveitarfélögum. Kjörnir fulltrúar þurfa að iðka þessa frægu jafnvægislist og taka það sem þeir telja vera réttustu ákvarðanirnar fyrir sveitarfélagið og íbúa þess út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir. Í lok kjörtímabilsins ber ég því enn meiri virðingu fyrir öllu því góða fólki sem sinnt hefur sinni samfélagslegu skyldu í bæjarstjórn, fastanefndum og starfshópum á vegum sveitarfélagsins. Einnig öllu því góða fólki sem nú býður fram sína starfskrafta í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Mannauður sveitarfélagsins

Eitthvað sem stundum gleymist er að kjörnir fulltrúar hafa eingöngu ákvörðunarvald og bera ábyrgð á rekstri sveitarfélagsins. Það er hins vegar mannauður sveitarfélagsins sem heldur því gangandi. Það væri því lítið að skrifa um ef ekki væri fyrir hið einstaka starfsfólk á bæjarskrifstofu Ölfus sem hefur það óöfundsverða hlutverk að framfylgja ákvörðunum bæjarstjórnar, starfsfólki grunnskólans sem menntar og fræðir börnin okkar, starfsfólk Níunnar sem hugsar um okkar besta fólk og svo mætti lengi telja. Öll erum við hluti af heildinni og viljum gera Sveitarfélagið Ölfus enn betra.

Nú þegar líður að kjördegi fer ég sáttur frá borði hvað varðar störf mín í bæjarstjórn á kjörtímabilinu, og bind miklar vonir við komandi tíma. Á D-listanum nú sitja áfram í forustu einstaklingar sem sýnt hafa og sannað að hagsmunir Ölfus eru þeim efst í huga. Þar eiga líka sæti nýjir frambjóðendur, og með nýju fólki kemur ferskur andblær. Mikilvægi þess að halda rétt á spilunum verður aldrei of oft kveðið og vona ég að þú kjósandi góður setjir X við D í sveitarstjórnarkosningum þann 14. maí og kjósir þar með að halda áfram því góða starfi sem átt hefur sér stað á kjörtímabilinu.

Steinar Lúðvíksson bæjarfulltrúi og frambjóðandi í 13. sæti D-listans