Eldri borgarar í Ölfusi

Málefni eldri borgara eru eitt af mikilvægustu málefnum hvers sveitarfélags og því er nauðsynlegt að hafa skýra og metnaðarfulla stefnu í málaflokknum sem hefur það að markmiði að auka lífsgæði og öryggi eldri borgara. Gott samstarf við eldri borgara er líka mikilvægt við uppbyggingu þjónustunnar. 

Sveitarfélagið Ölfus er ungt bæjarfélag sem leggur metnað í að búa vel að eldri borgurum í sveitarfélaginu en alltaf má gera gott betra. Mikil breyting hefur átt sér stað í málefnum eldri borgara, á síðustu áratugum, þar sem fleiri geta búið heima þrátt fyrir háan aldur og þarf þjónustan að taka mið af því. Til þess að eiga kost á að búa heima, þrátt fyrir að heilsunni sé farið að hraka, er mikilvægt að geta búið við öryggi og góð lífsgæði en það felur meðal annars í sér að hafa góða félagslega heimaþjónustu og eiga kost á því að rækta líkamlega, andlega og félagslega vellíðan. 

Hvert viljum við stefna í málefnum eldri borgara? 

Góð einstaklingsmiðuð félagsleg heimaþjónusta við eldri borgara, sem sinnir grunnþörfum fólks, ásamt tækifærum til þess að rækta líkamlega, andlega og félagslega vellíðan þarf að vera grundvallar atriði í stefnumótun sveitarfélagsins.  

Heilsuefling eldri borgara er dæmi um metnaðarfullt verkefni sveitarfélagsins þar sem eldri borgurum gefst tækifæri á að styrkja sig og stuðla þannig að því að geta búið sem lengst heima og er mikilvægt að sveitarfélagið haldi áfram að styðja við það verkefni. 

Félagsleg heimaþjónusta á vegum sveitarfélagsins er grunnstoð þess að fólk geti búið heima og þarf að móta hana eftir þörfum hvers og eins en líka í samvinnu við aðra þjónustuaðila. Fulltrúi eldri borgara, sem er ný staða, hefur það hlutverk að tryggja hagsmuni aldraðra í sveitarfélaginu og að styðja við þá er liður í því að bæta þjónustu við eldri borgara.

Leiguíbúðir sveitarfélagsins, sem eru fyrir eldri borgara á Egilsbraut 9, hafa verið eftirsóttar og þess vegna þarf að halda áfram að bæta við fleiri íbúðum til þess að mæta þessari eftirspurn.

Dagdeild eldri borgara er mikilvægur þáttur í því að fólk geti búið sem lengst heima, þrátt fyrir að heilsunni hafi hrakað, því er nauðsynlegt að tryggja þeirri mikilvægu þjónustu aðstöðu við hæfi en hafist verður handa við byggingu nýrrar dagdeildar á komandi mánuðum.  

Félagsleg virkni er mikilvæg fyrir alla sama á hvaða aldri við erum. Félagsstarf eldri borgara hefur verið starfrækt á Egilsbraut 9 og er nauðsynlegt að því verði áfram skapaðar viðeigandi aðstæður við uppbyggingu húsnæðisins. Hvort sem það er til þess að sinna handverki, spila, syngja, eiga gott spjall við náungann eða hvað annað sem eldri borgarar hafa áhuga á að gera.  

Það hefur verið lengi ósk íbúa að hjúkrunarheimili rísi í sveitarfélaginu en sú ósk hefur því miður ekki orðið að veruleika. Það er hins vegar mikilvægt að halda áfram að óska eftir því við stjórnvöld að fá hingað hjúkrunarheimili en með stækkandi sveitarfélagi og aukinni þörf á hjúkrunarrýmum á það að vera raunhæft markmið.

Gerum gott betra fyrir eldri borgara: 

  Sú kynslóð sem byggði upp okkar góða samfélag í sveitarfélaginu Ölfusi á skilið að njóta verðskuldaðrar virðingar með góðri þjónustu og tækifærum til að efla heilsu sína. Ég mun leggja allan minn metnað í að sinna málefnum eldri borgara af heilum hug og með hagsmuni þeirra að leiðarljósi fái ég stuðning þinn, kæri kjósandi, í komandi kosningum þann 14.maí. Setjum X við D og vinnum þannig saman að því að gera gott samfélag betra.

Bettý Grímsdóttir 
Hjúkrunarfræðingur og frambjóðandi í 11.sæti D-listans.