Hvernig er myndin máluð?

Ég vil byrja á að þakka öllu því fólki sem hefur gefið kost á sér fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, það er ekki sjálfgefið að fólk sé tilbúið í þá fórn sem fylgir þessu starfi að sitja í bæjarstjórn og nefndum fyrir íbúa sveitarfélagsins. Þetta er þó gefandi starf og veit ég að allir sem kjörnir verða munu hafa gaman af þessari vegferð. Ennfremur veit ég að að allt þetta fólk vill sveitarfélaginu og íbúum þess vel og munu gera sitt besta á þeirri vegferð.

Ég ætlaði ekki að blanda mér í þessa umræðu en það hefur því miður verið slík orðræða að mér fannst ég þurfa að koma með nokkra punkta svona rétt fyrir kosningar. Mér finnst það erfitt þar sem í boði er gott fólk og ég vil síður hallmæla neinum af þeim.

Það er þó áhugavert að ákveðnir hópar reyna að gera hjallastefnuna á leikskólanum að einhverju hitamáli. Höfum það á hreinu að leikskólinn og stefnan sem þar er við lýði skipta miklu máli, en hér skiptir líka máli að horfa á hlutina í réttu samhengi. Ég sat í Fræðslunefnd 2014 – 2018 og heyrði sögur bæði frá foreldrum og fyrrum starfsmönnum sem bentu til ákveðinna vandamála innan veggja leikskólans. Í litlu samfélagi getur orðið gríðarlega erfitt að gera breytingar á rótgrónu kerfi þar sem fólk getur orðið samdauna og vill oft persónugera hlutina. Það lítur oft á það sem persónulega árás ef rætt er um breytingar.

Það stóðu allir flokkar að þessari breytingu á leikskólamálunum og var þverpólitísk samstaða um breytinguna. Slík samstaða kemur ekki út af engu og má benda á að öll framboðin tefla fram frambjóðendum sem sátu í bæjarstjórn og samþykktu þessa ákvörðun.  Í stað þess að reyna að gera þetta að einhverju hitamáli og tala niður núverandi kerfi, þá ættu framboðin fremur að tala fyrir því að skoða þetta mál áfram í samvinnu, því allir stefna að sama markmiði að gera leikskólann sem bestan og eðlilegt að þessi mál séu í sífellri endurskoðun.

Reynt hefur verið að halda því fram að málefni eldri borgara séu í ólestri í sveitarfélaginu. Þeir sem hafa áhuga á þeim málum vita sem er að ávallt er hægt að betrumbæta, en bæjarstjórn hefur staðið sig vel í að styðja við þennan málaflokk. Þegar maður spjallar við það fólk sem tilheyrir þeim góða hóp heldri borgara er mikil ánægja með hvernig mál standa og skilningur á aðstæðum sem voru t.d. vegna Covid. Hér hvet ég framboð til að halda áfram að tala fyrir þessum málaflokk nú sem áður og ekki mála myndina dekkri en ástæða er til.

Frambjóðendur hafa farið mikinn að boða fjölbreytt atvinnulíf. Það er áhugavert að þessir aðilar sem tala hvað ákafast fyrir fjölbreyttu atvinnulífi, eru í raun að tala fyrir breyttu atvinnulífi. Þau vilja losna við ákveðna tegund fyrirtækja sem virðast þeim ekki þóknanleg og vilja bara fá “græn” og falleg fyrirtæki í sveitarfélagið.  Þau virðast þó gleyma því að við borgum ekki fyrir grunnþjónustu né gæluverkefni með draumórum. Það er gott og vel að vilja fjölbreytt atvinnulíf en ekki gera það með því að tala niður það sem nú þegar er til staðar eða þá sem hafa sýnt raunverulegan vilja á að koma hingað. Raunveruleikinn er sá að það er gott að fjölga stoðunum, ekki höggva þær niður.

Ræðum svo aðeins bæjarstjórann sjálfan sem hefur verið á milli tannanna hjá sumum. Ég hygg að enginn geti mótmælt því að aldrei nokkurn tíman hefur sveitarfélagið Ölfus verið jafn oft í fréttum og þá sérstaklega jákvæðum fréttum. Fólk kann að hafa mismunandi skoðanir á manninum Elliða, sumir segja helvítis sjálfstæðismaður, fyrir öðrum er hann draumaprinsinn, en svo eru það við hin, sem sjáum hvað stendur eftir þegar betur er að gáð. Við hin sjáum mann sem burtséð frá pólitískum skoðunum nær eyra fjölmiðla. Við sjáum mann sem nær góðum samskiptum við opinbera sem og einkaaðila, mann sem heimsækir fyrirtækin og reynir að kynna sér hvað er í gangi í sveitarfélaginu og mann sem hefur svo sannarlega tekið sveitarfélagið að hjarta sér og hefur reynt eftir fremsta megni að verða hluti af því.

Það skiptir gífulega miklu máli að hafa bæjarstjóra sem nær að halda athygli á sveitarfélaginu. Þið getið tekið stikkprufur sjálf og spurt fólk víðsvegar á landinu, líkurnar á að þau viti hver er bæjarstjórinn í Ölfusi eru töluvert hærri en þeir sem þekkja bæjarstjórann á t.d. selfossi(að honum ólöstuðum).  Þetta skiptir höfuðmáli þegar kemur að stöðunni sem sveitarfélagið er í dag. Það eru sóknarfæri og það kostar mikla vinnu að viðhalda þeim. Munum að bæjarstjórinn er starfsmaður sveitarfélagsins og bæjarstjórn tekur stefnumótandi ákvarðanir. En röddin sem hann gefur sveitarfélaginu er dýrmæt og það er erfitt að fá sambærilega rödd ef við missum hann.

Það er af mörgu öðru að taka en ég læt staðar numið hér. Ég vona að enginn taki þessu sem persónulegri árás en ég vona að allir listar nái inn manni til að aðhald sé til staðar, en ég hygg að nauðsynlegt sé að kjósa XD til að viðhalda þeirri stefnu sem við erum á í dag sem vaxandi sveitarfélag, í vaxtaverkjunum er gott að hafa stefnufestu og með XD næst að viðhalda því.

Það vilja öll framboð vel fyrir sveitarfélagið og íbúa þess, ég efast ekki um heiðarleika og einlægan vilja allra sem boðið sig hafa fram, en það er munur á því að byggja skýjaborgir eða sveitarfélag.

Með vinsemd og virðingu
Ólafur Hannesson