Í fjölda ára hafa börn leikskólans fengið að rækta grænmeti á leikskólalóðinni en einungis yfir sumartímann. Okkur í foreldrafélagi leikskólans Bergheima fannst því upplagt að festa kaup á Bambahúsi, en það er samfélagslegt gróðurhús sem hægt er að nota allan ársins hring. Bambahús hafa mikið samfélagslegt og umhverfislegt gildi. Börnin fá tækifæri til að læra um, og rækta sitt eigið grænmeti inni á skólalóðinni allan ársins hring, auk þess að læra um endurnýtingu og sjálfbærni. Í hverju húsi eru 7 bambar, sem eru endurnýttar vökvaumbúðir, sem færu annars í förgun með tilheyrandi kostnaði og slæmum umhverfisáhrifum.
Stjórn foreldrafélagsins fór að velta því fyrir sér hvernig hægt væri að fjármagna slíkt gróðurhús.
Haustið 2021 sáum við auglýsingu frá Krónunni, um að hægt væri að sækja um styrk í nærumhverfi verslana Krónunnar sem hafa það markmið að efla heilsu og hreysti barna.
Foreldrafélag leikskólans Bergheima taldi að kaup á Bambahúsi uppfylltu þessi skilyrði og sótti félagið því um styrk. Við urðum því himinlifandi þegar okkur barst tölvupóstur um að við hefðum hlotið styrk að upphæð 150.000 krónur.
Húsið kostar 369.000 kr og eftir að hafa hlotið styrkinn vantaði ennþá uppá fjárhæðina. Við höfðum þá samband við Möggu Pálu, stofnanda Hjallastefnunnar, sem samþykkti að styrkja foreldrafélagið um það sem uppá vantaði.
Bæjarstjórn Ölfus samþykkti svo að veita styrk fyrir flutningi bambahússins til Þorlákshafnar, ásamt því að leggja til vinnu við að finna hentuga staðsetningu með tilliti til rafmagns og vatnsleiðslna.
Í dag 25. júlí kom Bambahúsið loksins til Leikskólans okkar. Þar með er Leikskólinn Bergheimar einn af fyrstu leikskólum á Suðurlandi til að eignast Bambahús.
Við í foreldrafélaginu erum gríðarlega stolt af þessu og þökkum öllum þeim sem hjálpuðu okkur að láta þennan draum verða að veruleika og við hlökkum til að sjá hvað börnin koma til með að rækta.
Stjórn foreldrafélags leikskólans