Hamingjan við hafið hefst í dag. Það verður heldur betur þétt dagskrá sem stigmagnast á hverjum degi þar til hún tekur enda aðfaranótt sunnudags.
Við á Hafnarfréttum ætlum að vera með daglegar fréttir frá Hamingjunni þar sem við förum yfir það helsta fyrir hvern dag, þannig ætti ekkert að fara framhjá ykkur.
Í dag, þriðjudaginn 2. ágúst á fyrsta degi Hamingjunnar eru þrír dagskráliðir. Þar ber helst að nefna að kl. 16 fer Hamingjurásin í loftið en hægt er að hlusta á hana á tíðninni 106,1, í útvaprsappinu og síðar í dag verður hún einnig aðgengileg í gegnum forsíðu Hafnarfrétta. Það er Magnþóra Kristjánsdóttir sem fer með dagskrárstjórn Hamingjurásarinnar en þar eru fjölmargir þáttastjórnendur. Hægt er skoða dagskrá útvarpsins á facebook síðu Hamingjurásarinnar.
Í dag kl. 17 og alla næstu daga á sama tíma opnar gamla bræðslan fyrir þau hverfi sem vilja nýta sér rýmið til undirbúnings fyrir Hverfapartýið sem fer fram á föstudagskvöldið. Það er klárlega einn af hápunktum hátíðarinnar og eru allir íbúar hvattir til að taka virkan þátt í undirbúning með sínum hverfum.
Síðast en ekki síst er fyrsti viðburður hátíðarinnar þar sem allir koma saman en kl. 19.30 ætla hverfin að hittast og leika sér í Skrúðgarðinum, svona eins og gert var í gamla daga. Þar stjórnar hvert hverfi einum leik, allir fara á milli og hafa gaman. Hér er hugsunin að foreldrar komi með börnunum sínum, jafnvel amma, afi og önnur áhugasöm. Endilega fjölmennum!
Í dag hefst líka forsala á Hamingjuballið sem hefst um leið og stórtónleikarnir klárast á laugardagskvöldið. Þar fara þau fyrir hljómsveit Jónsi (Í svörtum fötum) og Unnur Birna, en þau trylltu dansgólfið á Flúðum um verslunarmannahelgina. Miðaverð í forsölu er 3500 kr. en við hurð á ballinu 4500 kr. Forsala verður í Kaffiskjóðunni (bakaríinu) á opnunartíma þess.
Svo má búast við því að fótboltaliðin séu farin að hita upp, máta búninga og stilla saman sína strengi fyrir hverfa fótboltamótið sem verður á miðvikudagskvöldið. Meira um það síðar.