Hamingjan við hafið: Dagur 2

Hamingjan við hafið hófst í gær þegar Hamingjurásin 106,1 fór i loftið. Um kvöldið léku hverfin sér svo saman í Skrúðgarðinum. Það var allur aldur sem kom þar saman og spiluðu brennó, eggjakast, húlluhringjaþraut og svo lauk þessu með Ölfusmeistaramótinu í skæri, blað, virkilega vel heppnað og bestu þakkir til þeirra sem skipulögðu leiki fyrir hönd hverfanna. 

Í dag miðvikudaginn 3. ágúst hefst dagskráin á því að Hamingjurásin fer í loftið kl. 9 eins og alla daga til og með laugardags. Endilega verið dugleg við að senda þeim skilaboð, biðja um óskalög og taka þátt í þeim fjölmörgu leikjum sem þau eru með. Hægt er að hlusta á 106,1 á spilarinn.is, á appinu Spilarinn og með því að smella á „Hamingjurásin“ takkann á forsíðu og öllum undirsíðum Hafnarfrétta. 

Klukkan 15 verður lautarferð í fallega Skrúðgarðinum okkar. Komið með teppi, nesti, kaffi á brúsa eða það sem hugurinn girnist og eigum saman notalega stund í sólinni. 

Sagan segir að það sé gríðarlegur metnaður í hverfunum þegar kemur að undirbúningi fyrir Hverfapartýið á föstudaginn. Í sumum hverfum er verið að vinna með þemu og það á sko að taka þau alla leið. Það verður spennandi að sjá hvernig gamla bræðslan lítur út á föstudaginn. 

En í kvöld berjast hverfin sín á milli í hverfa fótboltakeppni þar sem lið skipuð íbúum 30 ára og eldri keppa um eftirfarandi titla:

  • Hverfameistari 2022
  • Eftirminnilegasti leikmaðurinn 
  • Flottustu tilþrifin
  • Flottustu liðsbúningarnir 

Þið sem ekki eru á keppnisvellinum verðið auðvitað í stúkunni í réttu litunum að hvetja ykkar lið áfram, ekki spurning! Keppnin fer fram á gamla grasvellinum, hver leikur er 2 x 10 mín og 7 leikmenn mega vera inni í einu.

Á laugardaginn á milli kl. 12.30-16.30 bjóða fjölmargir íbúar fólki að koma á sölu og/eða sýningu á sínum listaverkum. Þá verður einnig markaðsstemning á 9unni en þar mega allir sem vilja fá borð og sýna og/eða selja sína list, handverk eða hvað sem er. Áhugasömum er bent á að hringja í Jónínu í síma 845 9626. 

Dagskrána í heild sinni er hægt að nálgast á facebook síðu Hamingjunnar við hafið, á olfus.is og svo birtist hún í Dagskránni sem kemur út á morgun, fimmtudag. Endilega nælið ykkur í eintak og klippið dagskrána út.