Hamingjan við hafið: Dagur 3 (sjáðu myndirnar)

Það var gríðarleg keppnisstemning þegar hverfamótið í fótbolta fór fram og greinilegt að öll liðin voru komin til að sigra. 

Það voru þrjú lið með jafnmörg stig (gulir, rauðir og bláir) sem unnu öll tvo leiki og töpuðu einum en gulir með flest mörk í plús og því meistarar Hamingjunnar við hafið 2022. Bláir unnu fyrir bestu búningana, besta markið var skorað af Skúla Kristni Skúlasyni úr rauða hverfinu og grænir fengu verðlaun fyrir bestu tilþrifin. 

Nú fimmtudaginn 4. ágúst verður heldur betur nóg um að vera fyrir alla aldurshópa. 

Sundlaugapartý og tónleikar á bakkanum kl. 16

Yngstu kynslóðirnar sletta úr klaufunum í hressandi sundlaugapartý þar sem boðið verður upp á slush, farið í leiki og hægt verður að hoppa af trampolíni ofan í sund. Þá verða tónleikar á sundlaugabakkanum með unghljómsveitinni Gulllax sem er m.a. skipuð tvíburum sem ættaðir eru úr Þorlákshöfn, þeim Mikael og Viktor sem eru barnabörn Sigrúnar Theodórs og Jóns, synir Auðar Helgu sem ólst hérna upp og spilar ennþá með Lúðrasveit Þorlákshafnar, sem þeir bræður eru nú einnig meðlimir í. Það geta allir sem viljað komið á sundlaugarbakkann og hlustað á tónleikana sem hefjast um kl. 16 um leið og sundlaugarpartý fer í gang. Þessi viðburður er í samstarfi við ungmennaráð sem halda utan um leikina. 

Grill og harmonikku skemmtun á 9unni 

Talandi um að sletta úr klaufunum. Kl. 18 hefst hið árlega grill og harmonikkuball á 9unn. Jón Páll sér um að grilla líkt og undanfarin ár og hljómsveitin Sigfús sem slær í gegn á hverju ári stjórnar fjöldasöng og spilar svo fyrir dansi. Það eru allir velkomnir, það eina sem þarf að gera er að taka með sér eitthvað á grillið, dansskóna og góða skapið. 

Garðtónleikar um allan bæ

Hljómlistafélag Ölfuss stendur nú í annað sinn fyrir garðtónleikum um allan bæ. Á tónleikunum verða 8 atriði á jafnmörgum stöðum víða um bæinn og allstaðar er það heimafólk sem er í fararbroddi í tónlistaratriðunum og öll gefa vinnu sína. Viðburðurinn liður í fjáröflun Hljómlistafélagsins sem stendur í framkvæmdum við uppbyggingu á æfinga- og upptökurými með það að markmiði að styðja við blómlegt tónlistarlíf í sveitarfélaginu. 

Fyrstu tónleikar kvöldsins verða í húsnæði Hljómlistafélagsins á Selvogsbraut 4 kl. 19.15 og sala á armböndum hefst sama dag kl. 18. Tíma- og staðsetningar verða gerðar aðgengilegar miðahöfum við kaup á armbandi.

Miðaverði (armbandið) er stillt í hóf
1000 kr. fyrir 12-18 ára
2000 kr. fyrir fullorðna

Ekki missa af þessum einstaka viðburði!

Gamla bræðslan breytist í karnival hús

Hverfin byrjuðu í gær að skreyta fyrir hverfapartýið sem verður í bræðslunni á föstudagskvöldið. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta mun líta út þegar öll hverfin eru búin að græja sín tjöld. Enn og aftur eru íbúar hvattir til að taka virkan þátt í undirbúning. Það geta allir lagt eitthvað af mörkum og það verður allt skemmtilegra þegar samvinnan er mikil og góð. Allar upplýsingar eru aðgengilegar inn á hverfahópunum á facebook. 

Dagskrána í heild sinni er hægt að nálgast á facebook síðu Hamingjunnar við hafið, á olfus.is, forsíðu Hafnarfrétta og svo birtist hún í Dagskránni sem kemur út í dag, fimmtudag. Endilega nælið ykkur í eintak og klippið dagskrána út. 

Að lokum minnum við ykkur öll á að stilla inn á Hamingjurásina 106,1. Hamingjurásin fer í loftið kl. 9 eins og alla daga til og með laugardags. Endilega verið dugleg við að senda þeim skilaboð, biðja um óskalög og taka þátt í þeim fjölmörgu leikjum sem þau eru með. 

Hér að neðan má sjá myndir frá gærdeginum: