Að kjósa gegn eigin sannfæringu

Á fundi Skipulagsnefndar 21. júlí síðastliðinn var lögð fram umsókn Heidelberg Cement Pozzolanic Materials (HPM) ehf. um tæplega 5 ha. lóð undir vinnslu hráefnis í sement sem fyrirhugað er að flytja út til Norður-Evrópu. Umsóknin var samþykkt, líka af okkur sem sátum fyrir XB Framfarasinna á fundinum. H-listinn á ekki fulltrúa í nefndinni en lagði fram bókun á bæjarráðsfund gegn tillögunni. Okkur þykir rétt að þetta komi fram þar sem bæjarstjóri hefur tekið fram í fréttum að allur minnihluti bæjarstjórnar hafi samþykkt fyrirhugaða lóðaúthlutun. Hins vegar hefðum við sem sitjum í þessari nefnd fyrir hönd XB-Framfarasinna aldrei átt að veita samþykki fyrir lóðaúthlutuninni enda endurspeglar þetta verkefni hvorki skoðun okkar persónulega né stefnumál framboðsins.

Við hjá XB-Framfarasinnum lögðum áherslu á í okkar kosningabaráttu að laða til samfélagsins okkar lítil og meðalstór fyrirtæki sem þetta verkefni er svo sannarlega ekki. Við erum líka þeirrar skoðunar að ekki eigi að festa lóðir og landsvæði með þessum hætti fyrir verkefni sem hugsanlega eða kannski verða að veruleika því langan tíma getur tekið að leysa lóðir úr slíkum fjötrum. Því hörmum við að hafa ekki lagst gegn lóðaúthlutuninni og gert bókun um það sem rætt var á fundinum sem var fjölmargt en vitum jafnframt og sjáum vel nú að það sem ekki er bókað kemur ekki fram í fundargerðum. Þetta mál er brýning fyrir okkur nefndarfólk að standa með okkar sannfæringu og gildum og vera óhrædd við að leggja fram bókanir þannig að skoðanir okkar komi fram í fundargerðum. Það er vont að fara gegn eigin sannfæringu og því langar okkur að leiðrétta þetta, viðurkenna mistök okkar og draga lærdóm af.

Heidelberg-málið er stórt mál sem fékk allt of lítinn tíma í nefndinni til umfjöllunar. Við viljum að svona stór mál verði lögð fram til kynningar með fylgigögnum þar sem gott svigrúm sé til umræðu og afgreiðsla slíkra mála verði svo tekin fyrir á næsta fundi. Þetta sé gert til að nefndarfólk geti rætt málið við sitt bakland og tekið meðvitaða ákvörðun sem byggð er á réttum upplýsingum og samtali. Það geta ekki verið hagsmunir samfélagsins að slíkar ákvarðanir séu teknar í flýti og undir pressu.

Þetta verkefni er af þeirri stærðargráðu að það þarf að fara í ítarlega íbúakynningu þar sem fleiri sjónarmið komi fram, ekki eingöngu frá fyrirtækinu sjálfu heldur t.a.m. frá Vegagerðinni og Landvernd svo dæmi séu tekin. Með því móti geta íbúar í sveitarfélaginu kynnt sér vel þessar fyrirætlanir og komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Í lóðaumsókninni kom fram að fyrirtækið vill vinna vel með bæjarstjórn og í sátt við samfélagið í heild og teljum við því mikilvægt að íbúar fái að kynna sér málið og taka þátt með íbúakosningu ef þeir kjósa það. Þetta á líka við um vikurflutningana frá Mýrdalssandi ef það verkefni þróast áfram.

Margur kann að hugsa að þessi grein sé skrifuð af pressu frá samflokksmönnum, H-listanum eða vegna umræðunnar í samfélaginu en það er svo sannarlega ekki málið. Þeir sem standa okkur næst vita að svo er ekki. Málið búið að liggja þungt á okkur enda var okkur strax ljóst að við gerðum mistök. En til að læra af mistökunum þurfum við að horfast í augu við þau og viðurkenna þau.

Ekki er búið að samþykkja verksmiðjuna sjálfa og ekki búið að skrifa undir neina samninga og höfum við, íbúar í Ölfusi, því enn tækifæri til að krefjast svara við þeim spurningum sem okkur liggur á hjarta, krefjast íbúafundar þar sem verkefnið verði kynnt með fleiri aðilum en fulltrúum fyrirtækisins sjálfs og svo íbúakosningu ef vilji íbúa er þar.

Við undirritaðar vonum að þetta mál fái farsælan endi til heilla fyrir samfélagið.

Hrönn Guðmundsdóttir
Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir