Mánudagskvöldið 26. september mættu nokkur börn af elsta kjarna leikskólans ásamt foreldrum til að virða fyrir sér plánetuna Júpíter sem skein svo skært á himni þetta kvöld. Mikil eftirvænting var í hópnum og þegar Júpíter reis loksins upp yfir íþróttahúsið urðu hvorki börn né fullorðnir fyrir vonbrigðum.

,,Við vorum með sjónaukann sem foreldrafélagið gaf leikskólanum fyrir nokkrum árum og gátum við séð Júpíter ásamt tveimur fylgitunglum hans, Ganýmedes og Kallistó. Þetta var alveg magnað sjónarspil og eins og börnin lýstu því sem fyrir augum bar svo fallega „Vá! við sjáum regnbogaland“  þar sem Júpíter skein svo skært að það var eins og regnbogi í kringum hann í sjónaukanum“ sagði Ingibjörg Aðalsteinsdóttir kjarnastýra Álfheima.

Ástæðan fyrir því að Júpíter skein svona skært á mánudaginn var að jörðin og sólin voru nánast í beinni línu og vegalengdin á milli Júpíters og jarðarinnar hefur ekki verið minni síðustu 59 árin eða í október 1963. Einnig var hægt að sjá Satúrnus og Mars með berum augum og verður það hægt næstu kvöld ef það verður heiðskírt. Þessi stjörnuskoðun var smá þjófstart á þemaverkefni sem þessi börn ásamt kennurum elsta kjarna munu vinna í nóvember-febrúar en þar munu þau kynnast sólkerfinu okkar og bralla ýmislegt í kringum það.