Bæjarstjórn Ölfuss hefur tekið ákvörðun um að ganga til samninga við Jóhönnu Margréti Hjartardóttur um starf sviðsstjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs sveitarfélagsins. Jóhanna var valin úr hópi umsækjenda eftir ráðningarferli sem stýrt var af Hagvangi. Alls sóttu 7 einstaklingar um starfið en einn dró umsókn sína til baka.
Jóhanna hefur starfað sem menningar- og frístundafulltrúi Hveragerðisbæjar frá 2008. Áður starfaði hún sem umsjónarkennari og stigstjóri unglingastigs í Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Jóhanna lauk íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands og diplómanámi í stjórnun og forystu frá Háskólanum í Reykjavík. Frá 2012 hefur Jóhanna gegnt leiðtogahlutverki sem formaður stjórnar Körfuknattleiksdeildar Þórs í Þorlákshöfn.
Jóhanna mun væntanlega hefja störf á næstu vikum og bætist þar með í þá öflugu liðsheild sem hjá sveitarfélaginu starfar.