Matís og Þekkingarsetur Ölfuss halda fund í Ráðhúsi Ölfuss þann 19. október næstkomandi. Um er að ræða lið í verkefninu Nordic Salmon.
Á vef Matís segir að markmið fundarins sé ,,að tengja saman og styðja við fjölmarga hagsmunaaðila sem starfa í laxeldisiðnaði á Norðurlöndum, með áherslu á að kanna valkosti og hagkvæmni fyrir framhaldsvinnslu laxaafurða“.
Þetta verkefni er hugsað til þess að koma á laggirnar neti sérfræðinga sem geta greint hvort framhaldsvinnsla á laxi sé heppilegur á Norðurlöndum.
,,Upprunaleg hugmynd verkefnisins er að nýta þekkingu frá velgengni þorskvinnslu á Íslandi yfir í norrænan laxaiðnað, til að stuðla að frekari hagnýtingu og skapa störf á Norðurlöndunum“, segir ennfremur á vef Matís.