Í morgun voru afhent verðlaun fyrir hræðilegar kökur sem nemendur grunnskólans bökuðu og skreyttu. Anna Margrét Smáradóttir myndmenntakennari og Þóra Kjartansdóttir heimilisfræðikennari veittu verðlaun fyrir listrænustu og hræðilegustu kökurnar í tveimur aldursflokkum, 1.-5. bekk og 6.-10. bekk. Listrænasta kakan í yngri flokki var bökuð af þeim Emilíu, Freyju og Elíönu og sjá má afraksturinn hér fyrir neðan. Hræðilegasta kakan í þessum flokki var gerð af þeim Blönku, Míu og Amelíu. Í eldri flokki voru það Elísa Dagrún, Eva Karen og Sólveig sem áttu listrænustu kökuna og sú hræðilegasta var gerð af Söndru.
Einnig voru afhent verðlaun í skelfilegu hryllingssögukeppninni. Það var rithöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir sem valdi þrjár bestu sögurnar og það var heldur betur erfitt val því sögurnar voru allar hver annarri betri. Bergrún Íris hefur meðal annars skrifað bækurnar Kennarinn sem hvarf og Langelstur-bækurnar. Sögurnar sem urðu fyrir valinu verða birtar hér á Hafnarfréttum á næstunni.
Í þriðja sæti varð sagan Draugahúsið eftir Bjarna Mar Torfason. Í öðru sæti varð sagan Dularfulla veran eftir Sóldísi Söru Sindradóttur og sagan sem varð í fyrsta sæti heitir Þakgrátur og er eftir Þorgerði Kolbrá Hermundardóttur. Bergrún Íris hafði þetta að segja um sögu Þorgerðar: ,,Sagan er nístandi óhugnanleg og skilur lesandann eftir með hroll frá tám og upp í hnakka. Höfundur hefur gott vald á spennandi söguþræði og endirinn kemur á óvart!”
Það eru greinilega margir upprennandi rithöfundar hér í Ölfusi og það verður spennandi að fylgjast með þessum flottu krökkum í framtíðinni.