Þollóween – dagskrá föstudagsins

Það verður mikið um dýrðir í allan dag vegna Þollóween. Núna klukkan 11 hófust Hrekkja-jazztónleikar fyrir 5-10 ára börn í Versölum. Það er búningadagur í grunn- og leikskólanum og bæði börn og kennarar í hinum ýmsu gervum. Blaðamaður Hafnarfrétta hitti skólastjórateymi grunnskólans í morgun og í stað hinna hefðbundnu Ólínu, Jónínu og Garðars voru þar komnar galdranornir af bestu sort.

Milli klukkan 17 og 20 verður Grikk eða gott. Búið er að gefa út skjal með upplýsingum um hvaða hús bjóða furðuverur velkomnar og má finna það bæði hér á Hafnarfréttum og á Facebooksíðu Þollóween.

Hægt verður að fara í flóttaherbergi (Escape room) í húsnæði Mannbjargar frá klukkan 18 en panta þarf tíma fyrirfram (sjá viðburð á Facebook). Þessi viðburður er fyrir 16 ára og eldri.

Hræðilegasta draugahús allra tíma verður svo opnað klukkan 19 á lofti gamla Meitilsins (Frostfisks). Er um að ræða magnaða leikhúsupplifun þar sem um 20 manns koma við sögu en það eru þær Erla Dan Jónsdóttir og Ágústa Ragnarsdóttir sem hafa lagt nótt við dag til að skapa þetta stórkostlega og hræðilega draugahús. Aldurstakmark er 14 ár. Aðgangseyrir er kr. 1000. Draugahúsið verður opið frá kl. 19-23 og gott að mæta fyrr en seinna.