Dansar og syngur í hesthúsinu

Ölfusingur vikunnar er Brynja Eldon. Brynja hefur verið áberandi í samfélaginu þegar kemur að umhverfismálum en hún hefur staðið fyrir skipulögðum plokkdögum. Einnig er hún mikill dýravinur. Brynja er líka listakona og í síðustu viku opnaði hún sýningu undir stiganum með verkum sínum. Sýningin verður opin út nóvember.

Fullt nafn: Brynja Eldon Sigurðardóttir

Aldur: 42

Fjölskylduhagir: Börnin þrjú Emma 19 ára, Hrafn 16 ára og Jökull 8 ára.

Starf: Listakona. Hef gaman af ljósmyndun, að mála og teikna. Ég hef fengist við allskonar verkefni tengt listinni.

Hvað ertu búin að búa í Ölfusi í langan tíma? Flutti hingað 2015 og sé sko ekki eftir því.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Mín eigin kjötsúpa er uppáhaldið eftir að ég náði að gera hana eins og amma gerði hana.

Áttu þér uppáhaldsbók, hver er hún? Nýjasta uppáhaldið er bókin um Gísla frá Uppsölum. Svo í sumar fékk ég mér aðgang að Storytel í fyrsta sinn og hef ég hlustað á eina til fjórar bækur í viku síðan. Ég hef aldrei verið dugleg að lesa svo að þetta er bylting í mínu lífi.

Hvaða kvikmynd getur þú horft á aftur og aftur? Stellu í Orlofi, ég kann hana utan að og get þulið upp úr henni endalaust af frösum. ,,Hver á þennan bústað? Já eða Nei?

Hvað hlustar þú mest á? Íslenska tónlist fyrst og fremst, bæði gamla og nýja. Svo skipti ég yfir í podköst og hljóðbækur til skiptis.

Hver er þinn uppáhaldsstaður í Ölfusi? Ströndin okkar er algjör perla og er yndislegt að njóta hennar með dýrum og fólki.

Hvernig hressir þú þig við þegar þess þarf? Set tónlist í eyrun og hækka vel. Þá helst Sálina hans Jóns míns, þeir drengir klikka aldrei.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Mamma og pabbi eru mínar helstu fyrirmyndir. Mögnuð bæði tvö á svo margan hátt.

Hvaða lag fær þig til að dansa? Þau eru svo mörg, ég þakka oft fyrir að ég búi ekki í blokk því ég dansa oft og syng þegar ég er að taka til heima. Dansa og syng líka í hesthúsinu.

Hefur þú grátið af gleði? Ef svo, hvaða aðstæður kölluðu fram gleðitárin? Afrek barnanna kalla fram mýktina í mér og hafa laumast stundum fram tár.

Hvað elskar þú við Ölfus? Náungakærleikurinn og samheldnin hér er einstök. Umhverfið magnað og var það mikið gæfuspor í mínu lífi að flytja hingað úr Reykjavík.

Hvað myndir þú vilja sjá í Ölfusi sem ekki er hér nú þegar? Ég myndi vilja sjá malbikaðan stíg í hring á milli Þorlákshafnar, Eyrabakka, Selfoss og Hveragerðis.

Hver er uppáhalds æskuminningin þín? Minningar sem ég á úr sveitinni, Torfastöðum í Grafningi. Sauðburðurinn var alltaf bestur.

Hvert dreymir þig um að fara? Mig dreymir um að ferðast með krakkana út um allan heim.

Áttu þér uppáhalds mottó, eða einhver orð sem þú hefur í huga dags daglega? ,,Að hvert erfiðleikatímabil líður hjá“ og ,,það styttir alltaf upp“

Hvað er framundan hjá þér? Ætla að halda áfram að sinna listinni og skapa mér stærra nafn á því sviði.

Eitthvað að lokum? Takk fyrir að tilnefna mig sem Ölfusing vikunnar og ég minni á sýninguna mína á bókasafninu til 30. nóvember.