,,Snjalltækin okkar“ – námskeið fyrir eldra fólk

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið undirritaði fyrr á þessu ári samning  við Fræðslunetið um kennslu í tölvulæsi fyrir eldra fólk í kjölfar útboðs Ríkiskaupa. Um er að ræða sérsniðna kennslu sem hjálpar eldra fólki á Suðurlandi að nýta sér þjónustu og rafræn samskipti á netinu með það að markmiði að draga úr félagslegri einangrun, njóta afþreyingar á netinu og auka notkun á þjónustusíðum. Fræðslunetið kallar þessi námskeið „Snjalltækin okkar“ og hófst kennslan sl. vor og lýkur í mars á næsta ári. Það er tölvunarfræðingurinn Bjarni Hlynur Ásbjörnsson sem sér um kennsluna og hefur hann ferðast víða um fjórðunginn vegna þessa og nú er komið að því að halda tvö námskeið í ráðhúsinu í Þorlákshöfn. Fyrra námskeiðið hefst 5. desember og það síðara 5. janúar. Hvert námskeið er í fjögur skipti, tvær klukkustundir í senn.

Markhópurinn er fólk eldra en 60 ára sem hefur þörf á að læra á snjalltæki, spjaldtölvu og/eða snjallsíma. Námskeiðin fela í sér kennslu í notkun rafrænna skilríkja, heimabanka, netverslun og fræðslu vegna samfélagsmiðla og efnisveitna. Þá verður farið yfir notkun á tölvupósti og önnur rafræn samskipti. Bæði er lögð áhersla á hagnýtt gildi sem og skemmtana gildi tækjanna. 

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í námskeiðunum geta haft samband við Fræðslunetið í síma 560 2030 eða með tölvupósti steinunnosk@fraedslunet.is