Bæjarstjórn sameinast um tillögur vegna Heidelberg

Allir bæjarfulltrúar sammála um forsendur áframhalds verkefnisins

Nokkur umræða hefur verið um áform Heidelberg um að koma upp framleiðslufyrirtæki til vinnslu á umhverfisvænum íblöndunarefnum í steypu.  15. nóvember sl. hélt fyrirtækið íbúafund þar sem frumdrög fyrirtækisins voru kynnt.  Á síðasta fundi bæjarstjórnar fimmtudaginn 24. nóvember ræddi bæjarstjórn svo stöðu verkefnisins. Eins og bæjarbúar þekkja höfðu nokkrar skeytasendingar átt sér stað á milli meiri- og minnihluta en á þessum fundi kvað við nýjan tón.  Þessi nýi tónn varð svo til þess að bæjarstjórn öll sameinaðist um tillögu sem leggur útlínur að verkefninu og listar upp þær forsendur sem sveitarfélagið telur að liggja verði til grundvallar verkefnsins.

Forsendurnar sem bæjarstjón samþykkti samhljóða voru: 

Íbúakosning

Þegar fyrir liggur með hvaða hætti starfsemin verður, svo sem flutningur á efni, útlit bygginga o.fl. verður málið kynnt enn frekar fyrir íbúum og svo fremi sem fyrirtækið taki á annað borð ákvörðun um að ráðast í verkefnið verður haldin íbúakosning um framgang þess.

Sjálfhætt ef það skaðar hagsmuni samfélagsins

Bæjarstjórn áskilur sér fullan rétt til að tryggja hagsmuni samfélagsins við vinnslu málsins. Verði verkefnið á einhverjum tímapunkti metið skaðlegt fyrir heildarhagsmuni samfélagsins er því sjálfhætt.

Ekki inn á almenna þjóðvegakerfið

Ekki kemur til greina að efni, allt að þremur milljónum tonna, verði flutt frá námum eftir almenna þjóðvegakerfinu eins og það er núna. Finna þarf aðrar leiðir svo sem blöndu af námuvegum og færiböndum.

Rík krafa til mannvirkja á hafnarsvæðinu

Ekki kemur til greina að afsláttur verði gefinn af útliti og eðli mannvirkja sem rísa á hafnarsvæðinu. Hæð þeirra, útlit og annað fyrirkomulag skal í öllum tilvikum taka mið af nálægð við íbúabyggðina. Til að tryggja slíkt hefur umhverfis- og skipulagsnefnd skipað faghóp með arkitekt, verkfræðingi o.fl. sem tryggja skulu að ef mannvirkin rísi þá verði það til að efla samfélagið en ekki skaða það.

Ekki gefinn afsláttur af kröfum um hljóðvist, rykmengun og annað

Ekki kemur til greina að afsláttur verði gefinn af almennum kröfum um hljóðmengun, rykmengun og annað það sem valdið getur samfélaginu ama. Komi til þess að skipulagi verði breytt við vinnslu málsins verða slíkar kröfur að minnsta kosti þær sömu og eru í skipulagi hafnarsvæðisins.

Gestur Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar segir að hann hafi frá upphafi talið mjög stutt á milli bæjarfulltrúa hvað þetta verkefni varðar. „Við búum öll í þessu samfélagi og viljum því vel. Það þarf því auðugt ímyndunarafl til að gera því skóna að eitthvert okkar vilji það sem er slæmt fyrir samfélagið.“ Gestur Þór segir enn fremur að hann sé bjartsýnn hvað áframhaldandi úrvinnslu þessa máls varðar. „Því fer fjarri að ég telji að endamarkmið okkar eigi að vera að áform þessa fyrirtækis raungerist. Markmið okkar er að tryggja að hagsmuna samfélagsins sé gætt og þær forsendur sem voru samþykktar einróma eru til þess fallnar.“ 

Fundargerðina má lesa í heild sinni hér.