Jólaskókassi Ölvers

Kæru íbúar í Þorlákshöfn og Ölfusi

HIð árlega styrktarverkefni „Jóla-skó-kassi Ölvers“ er að fara af stað. Þetta er sjötta árið sem Ölver býður upp á Jólaskókassann og hefur vegur þessa verkefnis aukist með hverju árinu. 

Það sem helst hefur hjálpað til að þetta verkefni hefur fengið svona mikinn stuðning hér í sveitarfélaginu er að allur ágóðinn af sölu kassans er eyrnamerktur Grunnskóla Þorlákshafnar.  

Styrkurinn felst í að Kiwanisklúbburinn Ölver fer með 8. og 9. bekk í hópeflisferð sem tengist forvarnaverkefni skólans. Tilgangur ferðanna er að stuðla að jákvæðri samveru, upplifun og heilsusamlegu líferni fyrir nemendurna. Til skiptis höfum við farið í Þórsmörk og Landmannalaugar og sl. haust var farið í Landmannalaugar í frábæru veðri. Sjaldan hefur annað verkefni sem Kiwanisklúbburinn hefur styrkt verið eins samfélagslega stórt og skilað jafn ánægjulegum árangri. Undirritaður hefur verið heppinn með að komast í allar ferðir nema eina. Að verða vitni af upplifun krakkanna, sem mörg hver hafa varla farið út af malbikinu, er einstakt og sérstaklega hjá krökkum af erlendum uppruna – en mörg hver hafa aldrei upplifað náttúruperlur Íslands.

Jólaskókassinn hefur vakið mikla athygli og því miður hafa ótengdir aðilar farið að bjóða upp á samskonar lausnir fyrir foreldra. Við höfum hinsvegar málefnið okkur til stuðnings og hefur klúbburinn m.a fengið verðlaun, frá Kíwanishreyfingunni á Íslandi, fyrir frumlegasta fjáröflunarverkefnið og ánefninguna „Einkennisverkefni Ölvers“. Nú hafa tveir aðrir klúbbar tekið verkefnið upp á sína arma; Setberg, Garðabæ og Ós, Höfn í Hornafirði.

Eftir því sem verkefnið hefur vaxið er hugur okkar Ölveringa að bæta leikskólanum við það. Í stað dagsferðar væri hægt að bjóða börnunum upp á einhverskonar upplifun í leikskólanum.

Við viljum þakka foreldrum, ættingjum og aðstandendum fyrir stuðninginn sl. ár. Þetta gerist ekki nema með ykkar hjálp. Við vonum að þið haldið áfram að styrkja okkur í þessu góða verkefni og kaupið Jólaskókassa og í leiðinni einfalda ykkur, aðstoðarmenn jólasveinanna, með skógjafir. Í ár inniheldur kassinn eingöngu smáhluti/smápakka s.s leikföng, spil og föndur. Fólk sem hefur áhuga á að leggja þessu góða málefni lið er bent á heimasíðuna jolaskokassi.com þar sem hægt er að skoða sýnishorn af innihaldi kassans og leggja inn pöntun.  Það er einnig hægt að senda póst á olver.kiwanis@gmail.com fyrir 5. desember nk. og tilgreina hversu mörg börn eru á heimilinu, (eða hversu mörgum kössum óskað er eftir) kyn ef vill og aldur. Kassinn verður afhentur fyrir 11. desember.

F.h Kiwanisklúbbsins Ölvers

Þórarinn F. Gylfason, formaður styrktarnefndar