Sólborg Guðbrandsdóttir er Framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2022

Sólborg Guðbrandsdóttir hlaut í gær titilinn Framúrskarandi ungur Íslendingur 2022. Hún hefur unnið brautryðjendastarf í baráttu mannréttinda og réttinda kvenna þar sem hún hefur barist á móti skaðlegu feðraveldi og nauðgunarmenningu. Hún hefur hvatt ungt fólk til að breyta rétt og verið góð fyrirmynd í þeim efnum.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti Sólborgu verðlaunin við hátíðlega athöfn í KR heimilinu í gær ásamt Ríkeyju Jónu Eiríksdóttur, landsforseta JCI.

Fjölmargir voru tilnefndir til verðlaunanna en í topp tíu voru tveir Ölfusingar, þeir Daníel E. Arnarsson og Stefán Ólafur Stefánsson. Þeir tóku við viðurkenningu við þetta tækifæri.

Frekari upplýsingar um verðlaunaafhendinguna má finna á vefnum framurskarandi.is