Geo Salmo hélt íbúafund í ráðhúsi Ölfus í Þorlákshöfn miðvikudaginn 14. desember síðastliðinn og kynnti þar áform sín um uppbyggingu fiskeldis á landi vestan við Þorlákshöfn. Tilgangur fundarins var að kynna helstu efnisatriði úr umhverfismatsskýrslu sem fyrirtækið hefur lagt fram auk þess að kynna fyrirtækið og áætlanir þess á næstu árum. Jens Þórðarson framkvæmdastjóri Geo Salmo hélt kynningu fyrir hönd fyrirtækisins og var fundurinn vel sóttur og góðar umræður sköpuðust. Starfsfólk Geo Salmo var á staðnum og gátu fundagestir rætt við þau í lok fundarins.
Jens Þórðarson framkvæmdastjóri Geo Salmo:
„Við leggjum áherslu á að eiga í góðu samtali við íbúa og hagsmunaaðila á staðnum og erum þakklát fyrir góðar móttökur og velvild sem okkur hefur verið sýnd. Við vorum virkilega ánægð með íbúafundinn. Íbúar eru áhugasamir um áform fyrirtækisins og sveitarfélagið Ölfus hefur einnig sýnt áætlunum okkar mikinn áhuga.“
Verkefnið og umhverfismatsskýrsla
Geo Salmo hefur nú lagt fram umhverfismatsskýrslu um allt að 24.000 tonna fiskeldi á landi og verður framkvæmdinni skipt í tvo áfanga. Allir geta kynnt sér umhverfismatsskýrsluna og veitt umsögn um framkvæmdina og umhverfismat hennar. Umsagnir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 24. janúar 2023 til Skipulagsstofnunar. Hægt verður að nálgast umsagnir og athugasemdir sem berast um skýrsluna þegar kynningartíma er lokið og brugðist hefur verið við ábendingum.
Markmið fyrirtækisins er að framleiða hágæða lax á landi á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt. Stefnt er að því í framleiðslunni að endurnýta vatn og varma, nota affall og næringarefni ásamt því að nýta hliðarafurðir eins og kostur er og þannig taka mið af hringrásarhagkerfinu.
Næstu skref
Auk vinnu við umhverfismatsskýrslu hefur Geo Salmo unnið að öðrum liðum undirbúnings á undanförnum mánuðum. Fyrirtækið hefur nú þegar gert samning við norska félagið Artec-Aqua um hönnun og umsjón með flestum mannvirkjum og tæknilausnum sem tengjast verkefninu. Eldisker í landeldi Geo Salmo verða lokuð og aðstæður í þeim stöðugar, en fyrirtækin vinna nú saman að hönnun stöðvarinnar. Fjármögnun á verkefninu í heild er hafin og búist er við að því ferli ljúki á fyrstu mánuðum ársins 2023. Á sama tíma er unnið að undirbúningi orkusamninga og annarra þátta verkefnisins. Ljóst er að eldisverkefni að þessari stærðargráðu er mjög umfangsmikið á alla mælikvarða. Áætluð fjárfesting við fyrsta áfanga er um 30-35 milljarðar króna. Markmið Geo Salmo er að hefja framkvæmdir við fyrsta áfanga vorið 2023 og að fyrstu afurðir fyrirtækisins fari á markað í árslok 2025.
Jens Þórðarson framkvæmdastjóri Geo Salmo:
„Samstarfssamningur við norska fyrirtækið Artec-Aqua er mikilvægur fyrir verkefnið þar sem þau hafa reynslu af því að byggja fiskeldisstöðvar á landi í Noregi sem getið hafa sér gott orð fyrir góðan árangur. Ég er auk þess mjög ánægður með það starfsfólk sem gengið hefur til liðs við okkur á undanförnum mánuðum – þar er fólk með reynslu úr fiskeldi og öðrum greinum sem mun nýtast Geo Salmo vel. Núna erum við að vinna að nauðsynlegum leyfisumsóknum, samningagerð, fjármögnun og öðrum undirbúningi. Sú vinna gengur vel og við erum bjartsýn á framtíðina.“
Nánari upplýsingar veitir: Jens Þórðarson framkvæmdastjóri í síma 840-7134
Upplýsingar um umhverfismatsskýrslu Geo Salmo má nálgast hér.
Um Geo Salmo:
Geo Salmo ætlar sér að verða leiðandi aðili í þróun fiskeldis á landi á Íslandi. Fyrirtækið leggur áherslu á að starfsemi þess sé í góðri sátt við umhverfi og samfélag og ætlar sér að skapa hágæðavöru til útflutnings. Upplýsingar um fyrirtækið má nálgast hér.