Á aðventunni auglýstu Hafnarfréttir eftir tilnefningum til Ölfusings ársins 2022. Lesendur tóku vel við sér og yfir 60 tilnefningar bárust. Það eru þau heiðurshjón Gísli Eiríksson og Þórunn Jónsdóttir sem fengu flestar tilnefningar að þessu sinni og eru þau vel að titlinum komin.
Hér má lesa nokkrar umsagnir sem fylgdu tilnefningum þeirra:
,,Gef Gísla og Þórunni atkvæði mitt. Það fá þau fyrir jólaljósin sem eru búin að gleðja okkur Þorlákshafnarbúa undanfarin ár.“
,,Þórunn og Gísli eru Ölfusingar 2022 vegna þeirra óeigingjörnu verka að lýsa upp ár hvert „Jólaskóg“ (eins og Gilli segir það) á sandinum með jólaljósum og gleðja með því gesti og „akandi“.“
,,Þau gefa svo mikið af sér og gleðja alla með jólatrénu við veginn.“
,,Langar að tilnefna Þórunni Jónsdóttir og Gísla, manninn hennar. Þau hafa í mörg ár yljað manni um hjartarætur með lýsingu á jólatrénu rétt fyrir utan bæinn.“
,,Mig langar að tilnefna Þórunni Jóns og Gísla Eiríks sem Ölfusinga ársins því þau eru baráttujaxlar, hvunndagshetjur og gleðigjafar!“
,,Tilnefni Þórunni Jóns og Gísla Eiríks fyrir þeirra óeigingjarna en svo vel þegna sjálfboðaliðastarf að tendra jólaljósin upp á Hafnarsandi. Boðberar jólanna fyrir mér.“
,,Ölfusingur ársins 2022 að mínu mati og margra annarra reyndar ættu að vera Gísli Eiríksson og Þórunn Jónsdóttir, þau eru sem eitt. Gott fólk, hress og skemmtileg þar sem þau koma og hafa glatt okkur öll með fallega jólatrénu hér rétt fyrir utan bæinn“
Hafnarfréttir óska þeim Gísla og Þórunni innilega til hamingju með verðskuldaðan titil og megi þau eiga yndislegt og gjöfult ár 2023.
Aðrir sem hlutu tilnefningu eru: Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Brynja Eldon, Bæjarstarfsmenn Ölfuss, Elísa Nielssen, Hrafnhildur Árnadóttir, Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir, Ingólfur Árnason, Jacek Jasionowski, Sigrún Ágústsdóttir, Sigríður Stefánsdóttir og Sólveig Guðjónsdóttir. Til hamingju öll.