Þorrablót verður haldið í Versölum í Þorlákshöfn laugardaginn 4. febrúar. Það eru Hestamannafélagið Háfeti, Kiwanisklúbburinn Ölver og Leikfélag Ölfuss sem standa að blótinu en það er opið öllum 18 ára og eldri óháð félagsaðild.
Veislustjórar verða þær leikfélagssystur Erla Dan Jónsdóttir og Magnþóra Kristjánsdóttir, Veisluþjónusta Suðurlands sér um matinn og verður þar bæði þorramatur og lambalæri á boðstólum. Danshljómsveit Ívars Daníels leikur fyrir dansi. Fluttur verður annáll sem þorrablótsnefndin hefur sett saman og þar verður farið yfir atburði líðandi stundar.
Vonast þorrablótsnefndin eftir góðri þátttöku á blótinu en sú var tíðin að þorrablót í Þorlákshöfn var einn stærsti viðburður landsins af þessu tagi. Nú er lag að skella sér á blót eftir langt hlé vegna heimsfaraldursins.
Miðasala fer fram í anddyri ráðhússins 23. og 24. janúar frá kl. 19:00-20:00. Miðaverð á blótið er kr. 12.000 en kr. 5000 á ballið eingöngu.
Allar upplýsingar um dagskrá blótsins má finna á Facebookviðburðinum.