Yfirlýsing frá stjórn Lúðrasveitar Þorlákshafnar

Stjórn Lúðrasveitar Þorlákshafnar vill bregðast við þeirri umræðu sem hefur verið síðustu daga vegna frétta af styrkjum frá Heidelberg. 

Til að byrja með þarf að hafa ákveðnar staðreyndir á hreinu. 

  1. Lúðrasveit Þorlákshafnar hafði ekki samband við fjölmiðilinn sem um ræðir að fyrra bragði heldur hringdi blaðamaður á mánudagsmorgun til að fá viðbrögð frá formanni eftir að þessar fréttir um styrkveitingar bárust blaðamanni. 
  1. Lúðrasveitin vissi ekki á þeim tímapunkti hvaða önnur félög fengu þetta boð og er á engan hátt að dæma þau félög sem þáðu boð um styrk. Eins og áður hefur komið fram, var kosið um það hvort LÞ vildi þiggja styrkinn og meirihluti félaga hafnaði honum í lýðræðislegri kosningu. 
  1. Að síðustu er nauðsynlegt að taka það fram að formaður LÞ er ekki að saka fyrirtækið Heidelberg um mútur, heldur svaraði hún spurningu blaðamanns á þessa leið: „Þetta var mjög óþægilegt og maður vill hreinlega ekki trúa því að þetta séu einhverjar mútur. Mér fannst þetta mjög, mjög skrítið.  Við höfum aldrei lent í því áður að vera boðinn peningur fyrir ekki neitt.“

Í umræðunni hefur þeirri spurningu verið velt upp af hverju að hafna þessum styrk en ekki til dæmis styrk frá Hafnarnesi Veri sem hefur oft í gegnum tíðina styrkt félagasamtök í sveitarfélaginu eins og mörg önnur fyrirtæki. Stjórnin mat það sem svo að hér væri um eðlisólíka fyrirspurn að ræða, þar sem fyrirtækið er ekki komið með neina tengingu við samfélagið og er framtíð þess í sveitarfélaginu háð kosningu íbúa og því orkar þetta tvímælis. 

Eins og kom fram hjá formanni í títtnefndri grein, þá vill Lúðrasveit Þorlákshafnar ekki láta draga sig inn í pólitíska umræðu, í okkar félagsskap er fólk úr ýmsum áttum með ólíkar skoðanir sem alltaf getur lagt þær til hliðar þegar kemur að því að hittast, spila og hafa gaman. 

Þess má geta að þegar Lúðrasveit Þorlákshafnar afþakkaði styrkinn þá benti hún vinsamlega á að styrkurinn gæti komið öðrum að góðum notum eins og Þorlákskirkju sem sér m.a. um að úthluta matarkortum til þeirra sem minna hafa á milli handanna, VISS vinnu- og hæfingarstöð og ráðfæra sig við yfirfélagsfræðing í sveitarfélaginu til að vita hvar peningurinn kæmi best að notum. Þau svöruðu því til að peningnum yrði komið fyrir á góðum stað. 

Aðalbjörg Halldórsdóttir

Anna Margrét Káradóttir

Ágústa Ragnarsdóttir

Ása Berglind Hjálmarsdóttir

Ingibjörg Aðalsteinsdóttir

Þuríður Anna Róbertsdóttir