Samsýning Birgittu Bjartar og Daníels í Galleríinu undir stiganum

Þann 9. mars kl. 17:00 opna tvíburasystkinin Birgitta Björt Rúnarsdóttir og Daníel Rúnarsson samsýningu á nýlegum verkum sínum. Um er að ræða úrval fjölbreyttra verka; málverk, teikningar og hönnun. Þau munu útskrifast í vor frá Fjölbrautaskóla Suðurlands af listalínu. Sýningin er því í senn í tilefni af þeim tímamótum og sölusýning til að fjármagna útskriftarferð þeirra. 
Sýningin er í gallerínu Undir stiganum á Bæjarbókasafni Ölfuss í Þorlákshöfn og mun standa út marsmánuð. Tvíbbunum þætti vænt um að sem flest ykkar sæju sér fært um að kíkja Undir stigann og berja list þeirra augum.
———–

Birgitta Björt og Daníel eru fædd 24. september 2004 og hafa alla sína tíð búið í Þorlákshöfn. Þau hafa frá því þau muna eftir sér sífellt verið teiknandi og málandi en tekið listina markvisst fastari og meðvitaðri tökum hin síðari ár. Þau stefna bæði á að gera myndlist og hönnun að sínum vettvangi í framtíðinni. 
Bæði hafa þau tekið þátt í nokkrum myndlistarsýningum og Birgitta hefur einnig haldið eina einkasýningu.