Þórsarar tryggðu sér oddaleik gegn Haukum í kvöld þegar þeir sigruðu fjórða leik liðanna í 8 liða úrslitum í úrslitakeppni karla í körfubolta 94-82.
Haukar voru yfir í einvíginu 2-1 fyrir leik kvöldsins og var spennustigið hátt í Icelandic Glacial höllinni í kvöld. Styrmir Snær Þrastarson spilaði ekki með Þór í kvöld þar sem hann fékk heilahristing í síðasta leik liðanna. Það virtist þó hafa þau áhrif á lið Þórsara að þeir gáfu vel í og eftir frekar litlausa byrjun náðu þeir forskoti snemma í fyrsta leikhluta og héldu því allt til enda.
Frábær varnarleikur Þórsara var lykillinn að sigrinum í kvöld og að öllum ólöstuðum átti Tómas Valur Þrastarson stórleik en hann steig upp í fjarveru bróður síns og skoraði 21 stig, tók 4 fráköst og átti 1 stoðsendingu.
Stigahæstur Þórsara var Jordan Semple með 26 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar. Vincent Shahid skoraði 18 stig, tók 3 fráköst og átti 14 stoðsendingar.
Oddaleikurinn í seríunni fer fram í Ólafssal á Ásvöllum næstkomandi mánudag og hefst leikurinn kl. 19:15. Mætum á völlinn og sýnum Haukum í tvo heimana.