Þór sendir Hauka í sumarfrí

Þórsarar tryggðu sér sæti í undanúrslitum Subway deildar karla þegar þeir báru sigurorð af Haukum í æsispennandi oddaleik sem fram fór í Ólafssal í kvöld 95-93.

Haukarnir byrjuðu betur en þegar leið á náðu Þórsarar að saxa á forskotið og staðan var 44-41 Haukum í vil í hálfleik. Í þriðja leikhluta voru Þórsarar orðnir sjóðandi heitir og komust yfir í fyrsta sinn í leiknum um miðjan leikhlutann en þó endaði hann þannig að Haukar voru einu stigi yfir í lok hans. Vincent Shahid mætti hins vegar með miklum eldmóði í fjórða leikhluta og skoraði nánast úr öllum skotum og eftir æsispennandi síðustu sekúndur leiksins náðu Þórsarar að tryggja sér sigur.

Shahid skoraði 35 stig í leiknum og átti 8 stoðsendingar. Tómas Valur Þrastarson skoraði 15 stig og tók 6 fráköst og var með 3 varin skot, Pablo Hernandez skoraði 14 stig og tók 6 fráköst, Jordan Semple var með 12 stig og 6 fráköst, Fotios Lampropoulos skoraði 19 stig og tók 6 fráköst og Emil Karel Einarsson skoraði 9 stig.

Þórsarar mæta Val í næstu seríu og verður fyrsti leikurinn í Origo höllinni föstudaginn 21. apríl kl. 19:15.