Gudrun er fædd og uppalin í Þýskalandi en hefur búið hérlendis frá árinu 1982 en í Þorlákshöfn síðan á síðasta ári. Fyrstu tíu árin starfaði hún hjá þýska sendiráðinu en ævintýraþráin leiddi hana út á landsbyggðina og hefur hún m.a. rekið ferðaþjónustufyrirtæki, kennt, borið út póst, unnið hjá Samtökum sveitarfélaga, þýtt og skrifað bækur auk þess að stofna bókaútgáfu.
Frá árinu 2016 hefur Gudrun unnið að þróun sagnaþulaverkefnisins „Storytelling and stiches“ og eru myndirnar á sýningunni hluti af því.
Allur efniviður verkanna er endurnýttur, lök, borðdúkar og sængurver breytast úr hversdagslegum nytjahlutum í listaverk.
Sýningin opnar fimmtudaginn 6. júlí kl. 16 og verður opin á opnunartíma Bæjarbókasafnsins til loka ágústmánaðar.