,,Lestir og brestir“ er yfirskrift næstu tónleika í tónleikaröðinni Englar og menn í Strandarkirkju, sunnudaginn 16. júlí kl. 14. Þar koma fram sópransöngkonurnar Guðrún Brjánsdóttir  og Sólveig Sigurðardóttir ásamt Einari Bjarti Egilssyni píanóleikara. Þau flytja sönglög, aríur og dúetta sem fjalla á einn eða annan hátt um mannlega lesti og bresti. Á dagskránni eru m.a. verk eftir Sigvalda Kaldalóns, Pál Ísólfsson, Atla Heimi Sveinsson, Schubert, Grieg, Verdi og Mozart.

Miðaverð er kr. 3.500 og miðasala er við innganginn.

Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlennskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði kirkjunnar og STEFs og Tónlistarsjóði.

Um flytjendur:
Guðrún Brjánsdóttir sópran lærði á píanó hjá Snorra Sigfúsi Birgissyni og síðar hjá Svönu Víkingsdóttur í Tónlistarskólanum í Reykjavík þaðan sem hún lauk framhaldsprófi á píanó árið 2015. Frá sama skóla lauk hún burtfararprófi í einsöng þar sem kennarar hennar voru Sigrún Hjálmtýsdóttir og Þórunn Guðmundsdóttir. Guðrún stundaði nám í söng við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn þar sem kennari hennar var Hanna Hjort og lauk þaðan B.Mus.-prófi með hæstu einkunn árið 2021.Síðastliðinn vetur hefur Guðrún stundað framhaldsnám í söng og málvísindum við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum, hjá söngkennaranum Tamöru Acosta. Í febrúar 2023 deildi Guðrún sviði með bandarísku sópransöngkonunni Dawn Upshaw, þar sem þær skiptu með sér einleiksköflum fyrir sópran og hljómsveit í verkinu Winter Morning Walks eftir Mariu Schneider sem flutt var í Cornell-háskóla. Haustið 2022 keppti Guðrún í svæðisúrslitum bandarísku NATS-söngkeppninnar og hreppti þar 2. verðlaun, og í mars 2022 hlaut hún 1. verðlaun í íslensku söngkeppninni Vox Domini fyrir flutning á lagi eftir tónskáld keppninnar og 2. verðlaun í opnum flokki. Guðrún hefur farið með hlutverk í ýmsum óperuuppfærslum, svo sem í nokkrum óperum Þórunnar Guðmundsdóttur í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hlutverk Evridísar í La Morte D’Orfeo eftir Stefano Lando í Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn.

Sólveig Sigurðardóttir stundaði nám í píanóleik frá unga aldri. Hún nam síðan óbóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og lék á óbó m.a. með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hóf söngnám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar hjá Jóni Þorsteinssyni árið 2006 og lauk þaðan prófi í kórstjórn 2009. Hún lauk B.Mus. í klassískum söng frá Het Utrechts Conservatorium í Hollandi 2013 þar sem kennarar hennar voru Jón Þorsteinsson og Charlotte Margiono, og stundaði einnig söngnám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Hlín Pétursdóttur og Þórunni Guðmundsdóttur. Vorið 2018 lauk hún meistaragráðu í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi (NAIP) frá Listaháskóla Íslands, með söng sem aðalfag. Hún hefur einnig sótt fjölda námskeiða í söng, kórstjórn, leiklist og dansi.

Í janúar 2018 hlaut hún 2. verðlaun og áhorfendaverðlaunin í söngkeppninni Vox Domini. Hún var meðal fjögurra söngvara sem valdir voru til að taka þátt í Nordic masterclass hjá Gittu-Mariu Sjöberg og Jorma Panula í Sønderborg í Danmörku í júní 2019. Sólveig hélt tónleika í sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar í ágúst 2019 og söng einsöngshlutverk í Carmina burana með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins í nóvember 2019.

Sólveig er meðlimur sviðslistahópsins Óðs og söng hlutverk Adinu í fyrstu uppfærslu þeirra, Ástardrykknum, í Þjóðleikhúskjallaranum á leikárinu 2021-2022 og syngur hlutverk Norinu í uppfærslu hópsins á Don Pasquale sem sýnd er í Þjóðleikhúskjallaranum um þessar mundir.

Einar Bjartur Egilsson hóf píanónám 7 ára í Tónlistarskólanum í Reykjahlíð við Mývatn. Síðar fluttist
hann til Reykjavíkur og stundaði nám í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Guðríði St.
Sigurðardóttir og Önnu Málfríði Sigurðardóttur. Haustið 2010 hóf hann nám í Listaháskóla Íslands
undir handleiðslu Peters Máté og útskrifaðist þaðan vorið 2013. Í janúar það ár lék hann einleik í
píanókonsert F. Poulencs með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Frá 2013 – 2015 stundaði hann meistaranám í Konservatoríinu í Maastricht, Hollandi hjá dr. Katiu
Veekmans. Í desember 2014 hlaut hann styrk úr Minningarsjóði um Birgi Einarsson. Einar hefur samið
tónlist fyrir nokkrar stuttmyndir t. d. þýsku myndina Windspiele og síðla árs 2015 gaf hann út sína
fyrstu hljómplötu með eigin tónsmíðum sem nefnist Heimkoma. Hann hefur spilað á tónlistarhátíðum í
Hollandi og á Íslandi og starfað með kórum bæði þar og hér heima.
Núverið starfar Einar sem meðleikari við Tónskóla Sigursveins, Söngskólann í Reykjavík og
Söngskóla Sigurðar Demetz. Einar hefur haldið tónleika reglulega með ýmsum tónlistarmönnum
ásamt því að spila einleik annað slagið. Undanfarin ár hefur hann gefið út tvær hljómplötur með
píanóverkum eftir svissneska tónskáldið Frank Baumann og nú síðast breiðskífuna Kyrrð með eigin
verkum.