Næstu tónleikar á tónlistarhátíðinni Englar og menn í Strandarkirkju verða sunnudaginn 23. júlí kl. 14.
Syngjum selunum nýjan söng er yfirskrift tónleikanna þar sem fram fram koma tenórsöngvarinn Gissur Páll Gissurarson, Pamela De Sensi flautuleikari og Steingrímur Þórhallsson organisti.
Á tónleikunum verður boðið upp á tónlist eftir meðal annars Donizetti, Rossini, Sigvalda Kaldalóns og Schubert, allt frá operuaríum yfir í íslensk sönglög. Einnig verða frumflutt fjögur ný lög eftir Steingrím við ljóð Guðrúnar Valdimarsdóttur sem lést 102 á síðasta ári. Pamela hafði frumkvæði að verkunum þar sem hún dáðist að þessari hressu konu sem þótti svo vænt um ljóðin sín og bjó ekki svo langt frá Strandakirkj.
Aðgangseyrir er kr 3.500 og miðasala er við innganginn.
Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði kirkjunnar og STEFs og Tónlistarsjóði.
Um flytjendur:
Gissur Páll Gissurarson hóf söngferil sinn 11 ára gamall í titilhlutverki Oliver Twist eftir Charles Dickens í Þjóðleikhúsinu. Gissur Páll hóf formlegt söngnám árið 1997 við Söngskólann í Reykjavík undir handleiðslu Magnúsar Jónssonar. Árið 2001 hóf Gissur Páll nám við Conservatorio G.B. Martini í Bologna hjá Wilma Vernocchi. Að loknu námi í Bologna lærði Gissur Páll hjá Kristjáni Jóhannssyni. Gissur Páll steig sín fyrstu skref sem einsöngvari á óperusviðinu árið 2003, og hefur síðan sungið fjölda hlutverka og tónleka. Gissur Páll hefur tekið þátt í söngvarakeppnum í tvígang og unnið til verðlauna í báðum. Hann hlaut 3. verðlaun í alþjóðlegu söngvarakeppninni ,,Flaviano Labò“ árið 2005 og 2. verðlaun í alþjóðlegu söngvarakeppninni Brescia árið 2006 en þar fékk hann einnig sérstök verðlaun gagnrýnenda. Gissur Páll hefur komið víða fram, t.d. í Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Ítalíu, Japan og Bandaríkjunum svo eitthvað sé nefnt. Gissur Páll hlaut Íslenslu tónlistarverðlaunin sem besti karlsöngvarinn í flokki klassískrar- og samtímatónlistar fyrir flutning sinn á hlutverki Rodolfo í óperunni La Bohème e. Puccini í uppsetningu Íslensku óperunnar 2012. Gissur Páll hefur gert fjölmargar hljóðritanir og má þar nefna jóladiskinn ,,Fegursta rósin“ með Nýja Kvarttettinum árið 2008, ,,Ideale“ með Caput hópnum árið 2010 og ,,Aría“ með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Petri Sakari árið 2014. Á haustmánuðum 2019 kom út hljóðritun af íslenskum sönglögum, „Við nyrstu voga“.
Pamela De Sensi tók einleikarapróf á flautu frá Conservatorio G. Perosi á Ítalíu 1998, lauk „Perfection Flutistic“ frá „Accademia di Musica Fiesole“ í Florens árið 2000 og útskrifaðist frá „Conservatorio Superiore di S. Cecilia“ í Róm árið 2002 með meistaragráðu með hæstu einkunn í kammertónlist. Einnig hefur hún sótt tíma hjá heimskunnum flautuleikurum s.s. C. Klemm, M.Ziegler, F. Reengli, T. Wye, M. Larrieu og J. Galway. Pamela hefur komið fram á tónleikum víðs vegar bæði sem einleikari sem og í kammertónlist og má þar nefna Frakklandi, Spáni, Englandi, Kasakstan, Mexíkó, Íslandi, Færeyjum, Finnlandi, í Bandaríkjunum og víðsvegar á Ítalíu, ásamt því að koma reglulega fram hér á Íslandi þar sem hún hefur búið frá árinu 2003., m.a. á tónlistarhátíðunum Myrkum músíkdögum, Tibra í Salnum, Norrænum músíkdögum, Sumartónleikum í Skálholtskirkju, Menningarnótt, Tectonics, 15:15 tónleikaröðinni og Listahátið. Árið 2009 var henni boðið að halda tónleika á alþjóðlegri ráðstefnu The National Flute Association í New York og International Flute Festival Flautissimo í Róm árið 2010,2012, 2015 International Low Flute Festival í Washington 2018 það sem hún flutti íslenska tónlist við góðan orðstír. Pamela hefur spilað á nýja plötu Bjarkar UTOPIA.
Steingrímur Þórhallsson ólst upp á Húsavík þar sem hann hlaut sína fyrstu tónlistarmenntun við Tónlistaskólann á Húsavík. Hann fluttist síðan til Reykjavíkur og lauk píanókennaraprófi árið 1998 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, undir leiðsögn Önnu Þorgrímsdóttur píanókennara og kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar 1998 með Martein H. Friðriksson dómorganista sem orgelkennara. Þá um haustið lá leiðin til Rómar í Kirkjutónlistarskóla Páfagarðs, Pontifictio Istituto di Musica Sacra. Þaðan tók hann lokapróf, Magistero di organo, sumarið 2001 undir leiðsögn Giancarlo Parodi. Síðustu ár hefur Steingrímur fært sig meira yfir í tónsmíðar og útskrifaðist hann með B.A. próf í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands nú í júní síðastliðnum. Hann hefur samið fjölda kórverka og nú síðast Magnificat fyrir hljómsveik, kór, barnakór og einsöngvara. Einnig hefur Steingrímur unnið lagakeppnir í Bandaríkjunum undir heitinu Stein Thor. Frá haustinu 2002 hefur Steingrímur starfað sem organisti og kórstjóri við Neskirkju ásamt því sem hann hefur starfað með nokkrum tónlistarhópum á Íslandi. Sem orgelleikari hefur Steingrímur hefur komið fram í mörgum af helstu kirkjum á Íslandi bæði sem einleikari og meðleikari á tugum tónleika. Hann hefur leikið á nokkrum hljóðritunum hjá Ríkisútvarpinu, m.a. tvo orgelkonserta eftir Händel með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur komið fram á tónleikum erlendis, m.a. víða á Ítalíu, Finnlandi, Eistlandi, Frakklandi og Þýskalandi.