Sagan á bakvið Stólinn við ána

Ágústa og Árný í stólnum góða. Ljósm: Þórarinn Gylfason

Nú á dögunum opnaði ný sýning í galleríinu Undir stiganum. Þar er um að ræða samansafn af myndum sem allar eru teknar af ólíkum og ótengdum aðilum við ólíkar aðstæður af sama sjónarhorninu. Við vildum vita meira um söguna á bakvið sýninguna sem ber heitið Stóllinn við ána og heyrðum í listakonunum á bakvið sýninguna, þeim Árný Leifsdóttur og Ágústu Ragnarsdóttur.

Hver er sagan á bakvið sýninguna?

Fyrir þremur árum síðan “poppaði” upp forláta Lazy boy stóll á Hraunssandi á Óseyrartanga. Stóllinn fór fljótt að vekja athygli, ýmsir fylgihlutir bættust við og myndir af fólki í stólnum með síbreytilegt umhverfið allt kring fóru að birtast á samfélagsmiðlum. Við höfðum báðar gaman af þessum gjörningi sem enginn vissi hver stóð á bak við eða hvort hefði byrjað með þessu markmiði þ.e. láta fólk staldra við á þessum fallega stað. 

sagði Árný Leifsdóttir og heldur áfram

Í vor breyttust heimilisaðstæður Ágústu þannig að ekki var lengur pláss fyrir stól einn er hefur fylgt fjölskyldunni sl. 20 ár, forláta rauður Ikea stóll ásamt skemli. Fjölskyldan bar tilfinningar til stólsins sérstaklega vegna þess að í gegnum tíðina eru til margar ljósmyndir af vinum, vandamönnum og gæludýrum í téðum stól. Til eru myndir af heimasætunni á öllum aldursstigum í stólnum og þegar hún var yngri og stóllinn yfirleitt á vinnustofunni hringaði hún sig í honum og sofnaði þar á kvöldin þegar foreldrarnir voru að störfum þar inni fram á nótt! Sum sé fullt af minningum og svo er hann líka mjög þægilegur.

Ljóstraði upp um gjörninginn

En hvað skyldi gera við stólinn? Sú hugmynd vaknaði að láta hann öðlast framhaldslíf, endurtaka gjörning einhvers  frá fyrri árum. Ágústa hafði samband við landeigendur sem gáfu grænt ljós. Það er skemmst frá því að segja að fljótlega fór að bera á myndum á samfélagsmiðlum af stólnum. Það var svo í lok ágúst að Ágústa birti mynd á Facebook af heimasætunni í stólnum sem teknar voru með 15 ára millibili og þar með ljóstraði hún upp um hver bæri ábyrgð á þessum gjörningi.

Á sömu klukkustund og sú færsla birtist hafði Árný samband við Ágústu á messenger þar sem hún birti með mynd af vini sínum í þessum stól, stórkostleg mynd sem nú prýðir sýninguna. Árný vildi bara deila þessari mynd með Ágústu svona til gamans en í raun má segja að þremur mínútum seinna vorum við búnar að ákveða að halda sýningu! 

Hvernig gekk að fá myndir og úr hvaða áttum koma þær?

Ljósm: Helga Einarsdóttir sem einnig á mynd á sýningunni

Þær stöllur birtu innlegg á Facebook þar sem óskað var myndum, þeim að óvörum fór færslan á mikið flug og fékk meðal annars dreifingu hjá netmiðlum á Suðurlandi. Fljótlega fóru myndirnar að berast og það skemmtilega var að inn á milli voru alveg ókunnir sendendur sem höfðu haft veður af þessari hugmynd þeirra. Myndirnar eru afar fjölbreytilegar, myndefnið er fólk á öllum aldri eða auður stóll, sól og blíða eða hávaðarok og rigning, dagur og nótt, sumar eða vetur o.s.frv. Útsýnið þarna er ákaflega fallegt og síbreytilegt og er fólki greinilega innblástur.
Það varð fljótlega ljóst að hægt var að búa til stórskemmtilega sýningu með þessum ljósmyndum og sú sýning er loksins orðin að veruleika. 

Sýningin verður opin út nóvember á opnunartíma Bæjarbókasafns Ölfuss.

Það er ekkert ákveðið með framhald af hálfu þeirra Ágústu og Árnýjar en þó má geta þess að stofnuð hefur verið Facebook-síða þar sem fólk getur sent inn sínar eigin myndir af stólnum. Hana má finna með því að leita að Stóllinn við ána / The chair by the river. 

Það verður spennandi að sjá hvort aðrir taki við keflinu, munum við kannski sjá nýjan stól næsta vor?