Þórsarar unnu suðurstrandarslaginn eftir framlengdan leik

Mynd: Bára Dröfn / Karfan.is

Þórsarar unnu baráttuna um suðurströndina í kvöld þegar liðið vann Grindavík í Domino’s deildinni en framlengingu þurfti til að útkljá sigurvegarann eftir jafnan og spennandi leik í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn.

Jafnræði var með liðunum allan leikinn en Grindvíkingar voru þó ávallt einu skrefi á undan en Þórsarar fylgdu þó alltaf fast á eftir og hleyptu gestunum aldrei langt fram úr.

Davíð Arnar var stór þáttur í sigri Þórsara í kvöld en hann setti niður risa þriggja stiga skot þegar tæpar tvær mínútur lifðu leiks þar sem skotklukkan var við það að fjara út og jafnaði leikinn fyrir Þórsara og staðan 71-71 eftir venjulegan leiktíma. Davíð átti svo annan stóran þrist í framlengingunni sem segja má að hafi farið langt með að klára leikinn en Þórsarar kláruðu leikinn með stæl og lokatölur urðu 83-79.

Þórsarar hafa núna unnið þrjá leiki í röð í deildinni og sitja sem stendur í 5. sæti Domino’s deildarinnar. Í næsta leik fá þeir ÍR í heimsókn til Þorlákshafnar fimmtudaginn 21. nóvember.

Marko Bakovic var mjög flottur í kvöld með 20 stig, 16 fráköst og 3 varin skot. Dino Butorac 15 stig og gaf 10 stoðsendingar. Emil Karel setti stór skot í kvöld sem skiluðu honum 15 stigum og þá tók hann 7 fráköst. Halldór Garðar setti 10 stig og gaf 7 stoðsendingar. Vincent Bailey var með 9 stig og 9 fráköst, Davíð Arnar 8 stig og Ragnar Örn 6.