Þorrablótið verður 3. febrúar

Þorrablót Þorlákshafnarbúa verður haldið laugardagskvöldið 3. febrúar í Versölum. Það eru þrjú félög sem standa að blótinu, Hestamannafélagið Háfeti, Kiwanisklúbburinn Ölver og Leikfélag Ölfuss.

Að vanda er engu til sparað og dagskráin lofar góðu. Veislustjóri kvöldsins verður engin önnur en Ágústa Ragnarsdóttir listakona og lífskúnstner sem flestum er að góðu kunn hér í bæ fyrir óbilandi áhuga á samfélaginu og framlag sitt til hinna ýmsu málefna. Veisluþjónusta Suðurlands galdrar fram þorrahlaðborð af bestu sort þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, súrt sem ósúrt, jafnvel vegan. Þorrablótsnefndin hefur sett saman annál ársins þar sem samfélagið verður skoðað í spéspegli. Oft er sagt að það sé gott að vera tekinn fyrir á þorrablótinu því þá er eftir manni tekið. Eitthvað verður sungið af ættjarðarlögum eins og vera ber. Hljómsveitin Sunnan 6 sér svo um að halda fólkinu á dansgólfinu fram eftir nóttu.

Forsala miða fer fram í Kiwanishúsinu 23. og 24. janúar milli kl. 19 og 20. Miðaverð er kr. 14.500 á allt blótið en kr. 5.500 á ballið eingöngu. Miðar á ballið verða einnig seldir við innganginn þegar dansleikur hefst. Aldurstakmark er 18 ár og miðast við afmælisdaginn. Enginn bar verður á staðnum svo fólk er eindregið hvatt til þess að koma með eigin veigar. Að gefnu tilefni er það tekið fram að ekki er leyfilegt að hafa með sér klaka að heiman en boðið verður upp á klaka á staðnum.

Nú er lag að reima á sig ballskóna, strauja sparifötin og skella sér á eitt skemmtilegasta blót landsins.

Í þorrablótsnefndinni þetta árið eru þau Elsa Jóna Stefánsdóttir, Elín Fanndal, Erla Dan Jónsdóttir, Guðjón Ingi Daðason, Hilmar Högnason, Magnþóra Kristjánsdóttir og Stefán Jónsson.