Lúðrasveit Þorlákshafnar heldur einhverskonar sumarupphitunartónleika nk. laugardagskvöld  5. apríl í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn. Tónleikarnir eru ekki með hefðbundnu sniði, hvorki í uppröðun á sal né heldur annarri nálgun. T.d. verða þetta pokatónleikar þar sem einskonar öldurhúsastemning mun ráða ríkjum. Það þýðir að engin veitingasala verður á staðnum heldur kemur fólk bara með sitt hvaða nafni sem það nefnist.

Og svo verður fólk hvatt til að syngja og mögulega dilla sér líka ef það finnur hjá sér hvöt til þess en tónleikarnir bera yfirskriftina Sing-Along með Lúðró því efnisskráin er samsett úr íslenskum smellum, lögum sem tilvalið er að bresta í söng með! Þegar er búið að birta söngskrá inn á Facebook-síðu lúðrasveitarinnar sem og á Instagram-síðu hennar.

Um úrval laga er að ræða frá öllum tímum. Lögin eru í hljómsveitarútsetningum og ekki endilega öll erindi í ákveðnum lögum tekin svona til viðvörunar fyrir þá gesti sem vilja taka undir. Þetta verður frjálslegt og enginn sem mun leiða söng neitt sérstaklega.

Veðurspáin er frábær fyrir laugardaginn og tilvalið að skella sér á gott skemmtikvöld í heimabyggð eftir kvöldmatinn og fara svo kát út í komandi vor … og sumar þar sem Lúðrasveit Þorlákshafnar mun m.a. koma fram á 20 ára afmæli Bræðslunar á Borgarfirði eystri.

Stjórnandi LÞ er Daði Þór Einarsson. Miðaverð á Sing-Along er 2.900 kr. og miðasalan á tix.is