Knattspyrnusambandi Íslands áskotnaðist töluverðir fjármunir vegna þátttöku og árangurs karlalandsliðsins á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar. Nú hefur KSÍ ákveðið að deila hluta þessara fjármuna, alls 453 milljónum króna, til aðildarfélaga sinna. Knattspyrnufélagið Ægir fær í sinn hlut 5.531.000 kr., sem er auðvitað algjörlega frábært fyrir lítið félag.
Samkvæmt KSÍ á einungis að veita þessum fjármunum til knattspyrnutengdra verkefna, sem er að sjálfsögðu ekki mikið mál fyrir Ægi – félag sem samanstendur af einni knattspyrnudeild. Nánar er ráðstöfun fjármunanna ekki skilgreind af hálfu KSÍ, en stjórn sambandsins segir í tilkynningu að þess sé vænt að fjármununum verði ráðstafað til verkefna sem skili bættu starfi til lengri tíma.
Töluverð umræða hefur verið um þessi mál síðustu tvo daga á meðal þeirra sem hafa áhuga á íslenskri knattspyrnu og uppgangi hennar. Margir hafa lýst yfir áhyggjum af því að félög freistist til þess að nýta þessa fjármuni í að rétta af bókhald meistaraflokka og skammtímaverkefni félaganna, í stað þess að nýta þá í uppbyggingu innviða og yngriflokkastarf.
Fréttamiðillinn fótbolti.net hefur sent fyrirspurn á öll félög í efstu tveimur deildum Íslandsmóts karla og efstu deild kvenna, með eftirfarandi þremur spurningum.
- Hvað er í forgangi hjá þínu félagi í að nýta EM framlagið í?
- Er skipulögð áætlun hjá félaginu í hvað framlagið fer?
– Ef svo er, hvernig er sú áætlun í stuttu máli og er hún opinber? - Hve stór hluti er hugsaður beint í starf yngri flokka og í að búa til öflugri leikmenn?
Sem stuðningsmanni Ægis og velunnara félagsins, þá langar mig mikið að fá svör við þessum spurningum. Ég tel brýnt að þessir peningar verði nýttir til þess að gera yngriflokkastarfið hjá félaginu enn betra og blómlegra en það er í dag, með það að markmiði að skila fleiri góðum leikmönnum upp í meistaraflokk.
Alls hafa þrír uppaldir Ægismenn tekið þátt í leikjum liðsins í 2. deild karla í sumar og þar af hefur einungis einn verið í stóru hlutverki. Það verður að teljast frekar dapurt, en þrátt fyrir það má ekki gleyma því að starfið í Þorlákshöfn hefur skilað af sér góðum leikmönnum með reglulegu millibili síðustu ár. Þar ber helst að nefna Jón Guðna atvinnumann í Svíþjóð, Guðmund Karl í Fjölni og þá Svavar Berg og Arnar Loga, miðjumenn hjá nágrönnum okkar á Selfossi.
Nú veit ég ekkert um það hvernig fjármál Knattspyrnufélagsins Ægis standa, en mig grunar að rekstur meistaraflokks félagsins sé frekar kostnaðarsamur. Dreg ég þá ályktun helst af því að alls hafa 8 erlendir leikmenn tekið þátt í deildarleikjum félagsins í sumar. Það gera þeir væntanlega ekki ókeypis.
Ég vona innilega að þessir fjármunir sem félagið fær nú í hendurnar frá KSÍ verði aðskildir frá almennum rekstri félagsins og verði nýttir sérstaklega í að hlúa enn betur að yngstu kynslóð knattspyrnuiðkenda í Þorlákshöfn. Það væri gæfuspor.
Arnar Þór Ingólfsson