Finnur Andrésson heimsótti nemendur í 7.-10. bekk Grunnskólans í Þorlákshöfn í síðustu viku og hélt erindi sitt „Námserfiðleikar, ADHD og sjálfsmynd“.
Hafnarfréttir ræddu við Finn í apríl síðastliðnum þar sem hann greindi frá áformum sínum um að ræða við börn um lesblindu og ADHD. Sjálfur hefur hann alla tíð glímt við mikla lesblindu.
Á fyrirlestrinum í síðustu viku sagði hann nemendum frá veikleikum sínum í námi, hvernig hann brást við þeim og hvaða áhrif þeir höfðu á sjálfsmynd hans.
Finnur náði vel til nemenda skólans enda miðlar hann af eigin reynslu. „Erindið var fróðlegt og skemmtilegt og nemendur voru mjög áhugasamir,“ segir í frétt á vef grunnskólans og þakkar skólinn honum innilega fyrir heimsóknina.