Finnur: „Maður hafði oft hugsað að maður væri alveg nautheimskur“

finnurogjana-1Finnur Andrésson og Ólína Þorleifsdóttir heimsóttu Flúðaskóla á Flúðum síðastliðinn föstudag. Þar ræddi Finnur við nemendur og kennara í 8.-10. bekk um lesblindu, ADHD og tengsl við sjálfsmynd og líðan.

olina01„Við Finnur fórum að ræða saman eftir að ég las status frá honum á Facebook þar sem hann var að tala um lesblinduna sína. Mér fannst hann hafa svo flott skilaboð fram að færa sem pössuðu vel við mitt starf sem kennsluráðgjafi hjá skólaþjónustu Árnesþings,“ sagði Ólína Þorleifsdóttir um þetta flotta framtak þeirra tveggja.

„Þegar hann sagði svo frá því að hann langaði til að ræða við unglinga um lesblindu setti ég mig í samband við hann og við fórum að vinna saman að fyrirlestri.“ Ólína segir að það sé mjög mikilvægt að fólk hætti að hugsa um lesblindu, aðra námserfiðleika eða hindranir í sömu andrá og gáfur. „Það að vera lesblindur og/eða með ADHD hefur ekkert með gáfur að gera.“

Finnur hefur alla sína tíð glímt við lesblindu og átti alltaf í miklum erfiðleikum með bókleg fög á námsárum sínum. Hafnarfréttir slógu á þráðinn til Finns og fengu hann til að segja lesendum betur frá.

Langar að hjálpa krökkum sem eru í sömu sporum og hann var

„Þetta er búið að gerjast í mér í einhver fjögur ár og mig langaði oft að gera eitthvað þegar ég var yngri en það var bara enginn þroski í það. En eftir að ég tók mig á í lífinu og hætti að drekka þá hef ég haft þessa grimmd að langa að gera eitthvað fyrir einhvern. Að geta hjálpað einhverjum, að opna litlar sálir sem eru lesblindar en þora ekki að viðurkenna það,“ segir Finnur um hugmyndina að þessu frábæra verkefni þeirra.

finnurogjana-7„Maður hafði oft hugsað að maður væri alveg nautheimskur. Afhverju get ég ekki gert þetta þegar allir hinir geta þetta? Síðan á eldri árum fattar maður að ég get gert allskonar hluti sem aðrir vinir mínir klóra sér í hausnum yfir og fatta ekki,“ segir Finnur aðspurður út í lesblinduna. Honum finnst að skólakerfið ætti að byrja fyrr að kenna krökkum með námsörðugleika að vinna með höndunum.

Finnur segir blaðamanni frá reynslu sinni af prófum í skólanum þar sem hann fékk iðulega auka hálftíma í að svara prófunum vegna lesblindunnar. „Það var ekki séns að ég sæti þennan auka hálftíma því ég ætlaði ekki að vera svona heimskur að þurfa auka tíma í prófið. Frekar giskaði maður bara allt prófið og dreif sig út.“

Hann er kennurunum í grunnskólanum mjög þakklátur. „Það voru sérstaklega þrír kennarar sem virkilega þurftu að leggja sig fram við að hjálpa mér svo ég gæti fengið minn menntastimpil. Ég er þeim ævinlega þakklátur fyrir það.“

Faldi lesblinduna til 25 ára aldurs

Finnur reyndi að fela lesblinduna fyrir öðrum alveg þangað til hann varð 25 ára gamall. „Ég hefði viljað að einhver sem væri búinn að vinna í sjálfum sér hefði komið til mín þegar ég var 14-16 ára og sagt við mig að ég væri ekki heimskur. Sagt að það væri allt í góðu þó ég gæti ekki lesið.“

finnur02Hann fékk vini sína til þess að senda fyrir sig sms skilaboð eða til að skrifa á Facebook en það kom þó ávallt í bakið á honum þegar kom að því að svara. „Það var ennþá klaufalegra að segja að vinur minn hafi skrifað fyrir mig. Ég gat heldur ekki beðið fólk um að lesa texta fyrir mig, frekar giskaði ég á hlutina og hló kannski af fréttagreinum þó ég hafði ekki hugmynd um hvað stæði í þeim.“

Í dag er Finnur óhræddur við að skrifa það sem honum dettur í hug á Facebook og biður fólk frekar um að lesa fyrir sig ef þess þarf. Skondið atvik átti sér stað fyrir nokkru þegar hann setti inn færslu á Facebook um eina ferð þeirra feðginanna út að borða en í þetta sinn ákvað Finnur að nota leiðréttingarforrit í þeirri von um að textinn kæmi rétt út hjá sér. „Ég taldi mig hafa skrifað „Úti að borða með þessari skvísu“ en skömmu eftir að ég birti færsluna hringir Guðlaug frænka í mig. Hún sagðist ekki leggja það í vana sinn að skipta sér af skrifum mínum á Facebook en þessa færslu yrði ég að laga. Þarna hafði leiðréttingaforritið tekið yfir og ég skrifaði „Úti að skíta með þessari“ en ég sá auðvitað ekkert athugavert við þetta.“

Vilja koma erindinu sem víðast

Finnur og Ólína vilja fara með erindið sem lengst til að vekja sem mesta athygli á þessu þarfa málefni og eru fyrirhugaðar fleiri heimsóknir í grunnskóla landsins.