Eins og allir ættu að vera farnir að vita þá verða stórtónleikarnir Popphornið haldnir í Þorlákshöfn annað kvöld en tónleikarnir eru hluti af Landsmóti Lúðrasveita sem hefst í Þorlákshöfn í dag. Sveitirnar allar hafa undanfarið æft hver í sínu horni en núna hafa þær sameinast á Landsmóti og verða æfingar fram eftir kvöldi í kvöld og alveg fram að tónleikunum sjálfum annað kvöld.
Þetta verða sannkallaðir stórtónleikar þar sem öllu verður til tjaldað og er það virkilega vel gert að í litla bæjarfélaginu Þorlákshöfn séu haldnir 2 stórir tónleikaviðburðir með minna en árs millibili. Í október á síðasta ári héldu Jónas og lúðrasveitin mjög svo eftirminnilega útgáfutónleika í Reiðhöll Guðmundar fyrir smekkfullri höll á þrennum tónleikum.
Til að fá smá hugmynd um það sem er í vændum annað kvöld í Íþróttamiðstöðinni þá eru hér myndbönd frá tónleikum þeirra hljómsveita sem spila með lúðrasveitunum á morgun. Sveitirnar verða þó mun stærri heldur en sjá má hér þar sem öllum lúðrasveitum landsins verður blandað saman í 3 stórar sveitir. Þeir sem enn eiga eftir að næla sér í miða þurfa ekki að örvænta þar sem ennþá er hægt að kaupa miða inná midakaup.is.
Fjallabræður og Lúðrasveit Vestmannaeyja ásamt Sverri Bermann á tónleikum í Vestmannaeyjum fyrr á þessu ári.
200.000 naglbítar ásamt Lúðrasveit Verkalýðsins á Menningarnótt í Reykjavík árið 2008.
Jónas Sigurðsson ásamt Lúðrasveit Þorlákshafnar á útgáfutónleikum þeirra í október á síðasta ári í Þorlákshöfn.