Með vorinu er stefnt á breytingar á versluninni Kjarval í Þorlákshöfn en þá mun versluninni verða breytt í Kr. en nú þegar hefur ein slík verslun verið opnuð á Vík.
„Við opnuðum í ágúst nýtt formatt sem heitir Kr. og er Krónuverslun sem er aðlöguð að hverju bæjarfélagi en hefur þó alveg sömu merkingu og Krónan og er jafnmikils virði fyrir okkur,“ segir Jón Björnsson forstjóri Festis í samtali við Hafnarfréttir.
Jón segir að úrvalið á vörum á Krónuverðum muni aukast mikið frá því sem nú er í Kjarval og að hlutverk Kr. verslananna sé að færa neytendum fjölbreytt vöruúrval á lægra verði. „Í Kr. finnur þú meðal annars tvö þúsund vörur á Krónuverði,“ segir Jón og telur að það verði í kringum 70% fleiri vörur á Krónuverði en eru nú þegar í Kjarvals versluninni.
„Formattið á Vík er nýtt og við erum að læra á það og bæta og þegar við erum kominn með góða tilfinningu fyrir því, þá förum við í breytingar á Þorlákshöfn,“ segir Jón að lokum.