Dagskrá Hamingjunnar á laugardegi

hamingjan
Það var margt um manninn á stórtónleikum í Skrúðgarðinum

Eftir vel lukkaðan föstudag þar sem veðrið lék við alla í Hamingjunni þá höldum við áfram í dag, laugardaginn 10. ágúst, að sjálfsögðu í sól og blíðu. Fyrir ykkur sem langar að rifja upp frábæru stemninguna sem var í sápusprellinu og á stórtónleikum í gær, þá er hægt að sjá brot hér í þessu myndbandi.

POP UP Gallerí

Í gær kl. 16 opnaði POP UP Gallerí í bræðslunni þar sem finna má 6 listamenn sem hafa komið sér fyrir og stillt upp sínum listmunum sem eru bæði til sýnis og sölu. Hér á við að sjón er sögu ríkari.

Sandkastalakeppnin

Sandkastalakeppnin hefst kl. 10 í Skötubótinni. Bent er á bílastæðin við golfvöllin og staðsetning á keppninni er þar fyrir neðan. Það eru þær Hrafnhildur Hlín og Þrúður sem munu hafa umsjón með keppninni og dæma hana. Hér gildir frjáls aðferð, komið með áhöld að heiman og glás af hugmyndaflugi. Verðlaun verða veitt á sviði í barnadagskránni í Skrúðgarðinum í dag.

Dorgveiðikeppni á Suðurvararbryggju

Stangveiðifélagið Árblik heldur utan um dorgveiðikeppnina. Komið með veiðistangir og góða skapið. Beita á staðnum.

Rib bátaferðir og sjóbretti

Gestum í Hamingjunni gefst kostur á að skella sér í Rib bátaferð með afslætti hjá Black Beach Tours og Jaðarsport býður gestum upp á að prófa sjóbretti á mjög góðu verði. Skráning í Rib bátaferð í síma 5561500. Jaðarsport leggur af stað með fyrsta hóp kl. 10 og svo alltaf á tveggja tíma fresti. Áhugasömum er bent á að mæta hálftíma fyrir brottför í Herjólfshús þar sem þeir geta farið í viðeigandi fatnað.

Krakkasprell og opið hús hjá SB Skiltagerð

SB Skiltagerð býður fólki í opið hús þar sem þau verða með aðstöðu sýna til sýnis og hoppukastala og glaðning fyrir börnin á milli 10-14.

Mannlífsmyndir frá horfnum tímum

Ljósmyndasýning í húsnæði Black Beach Tours. Ljósmyndarinn Guðmundur Þorsteinsson (Bibbi) sýnir myndir frá horfnum tímum.

Sunnlenska götubitakeppnin fyrir utan Hendur í höfn.

Von er á fimm veitingastöðum sem ætla að framreiða sína bestu götubita sem verða til sölu fyrir sanngjarnt verð. Rikka, fjölmiðlakona og matgæðingur, mun velja besta götubitann. Lifandi tónlist og krítar og sápukúlur fyrir börnin.

Barna og fjölskylduskemmtun í Skrúðgarði

Á milli kl. 14-17 verður barna og fjölskylduskemmtun í Skrúðgarði þar sem verður heilmargt um að vera. Stúlknasveit, hljómsveitin Kalí frá Þorlákshöfn stígur á stokk í fyrsta sinn opinberlega, stundvíslega kl. 14. Þá verður fjölskyldubollywood með Margréti Erlu Maack, Leikhópurinn Lotta verður með söngsyrpu en þess má get að þau koma aftur á morgun með sýninguna Litlu hafmeyjuna sem er í boði Kvenfélags Þorlákshafnar.
Í Skrúðgarðinum verða einnig hoppukastalar, Sprell leiktækin verða á sínum stað og leikvöllur með opnum efnivið. Þá verður sirkusatriði á sviði, andlistmálun og fleira.

Skrúðganga, hverfapartý, bryggjusöngur og flugeldasýning

Kl. 18.30 leggur Lúðrasveit Þorlákshafnar af stað með skrúðgöngu frá Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Gestir af tjaldsvæði eru sértaklega hvattir til að mæta í Grunnskólann og labba með til að sækja hverfin sem verða sótt á eftirfarandi stöðum:
Gulir – Við leikskólann
Grænir – Við „hornið hans Franklíns“
Rauðir – Við umferðarljósin
Bláir – Við veitingastaðinn Meitilinn
Þá verður gengið upp Skálholtsbraut og eldri borgarar eru hvattir til að safnast saman við 9una og ganga með síðasta spölinn í gömlu bræðsluna

Þar munu hverfin bjóða gestum í partý þar sem léttar partý veitingar verða í boði en þess skal getið að um „kvöld snakk“ er að ræða og því gert ráð fyrir að fólk sé búið að fá sér kvöldverð áður. Í tjöldunum verður lifandi tónlist, líf og fjör. Upp úr 22.30 mun Jarl Sigurgeirsson leiða söng í bræðsluportinu þar sem einnig verður kveikt upp í varðeld. Þessi herlegheit enda svo með flugeldasýningu sem Kiwanismenn stjórna að vana.

Nánar um einstaka dagskráliði hér á þessari slóð https://www.olfus.is/static/files/Skrar/vefdagskra.pdf

Því miður fellur dagskráliðurinn Furðuverur úr hafinu niður, en áhugasömum er bent á sýninguna uppi í Ráðhúsi fyrir framan bæjarskrifstofuna. Þar má finna allskyns furðuverur úr hafinu.