Sunnudagur til sælu í Hamingjunni

Það var mikið sungið í hverfapartýunum í gömlu bræðslunni í gær eftir enn einn sólardaginn. Hátíðarstemningin í bænum í gær var gríðarlega mikil og allstaðar fólk á ferli, einmitt eins og við viljum hafa þetta hér í Hamingjunni við hafið. Hér er hægt að sjá brot af því sem var í gangi.

Í dag, sunnudag, verður ekki slegið slöku við og dagskráin heldur áfram.

Fjölskyldu yoga í Skötubótinni

Sóley Einarsdóttir leiðir yoga fyrir alla fjölskylduna í Skötubótinni. Er hægt að hugsa sér betri leið til þess að hlaða batteríin eftir allt fjörið um helgina heldur en einmitt í sólinni við sjóinn?

POP UP galleríið í gömlu bræðslunni

Það eru sjö listamenn sem hafa komið sér fyrir í gömlu bræðslunni þar sem þau eru með listaverkin sín til sýnis og sölu. POP UP galleríið hefur vakið mikla hrifningu og eru allir hvattir til að fara og skoða það, því sjón er sögu ríkari.

Jarðhitasýning ON og hamingjusamasta lúðrasveit landsins

Orka Náttúrunnar býður öllum í Hamingjunni við hafið frítt á jarðhitasýninguna kl. 14. Þar mun Lúðrasveit Þorlákshafnar taka á móti gestum með hressandi lúðrablæstri.

Leikhópurinn Lotta sýnir litlu hafmeyjuna

Kvenfélag Þorlákhafnar býður upp á sýninguna litla hafmeyjan, sem hefur farið sigurför um landið í allt sumar. Um er að ræða sýningu fyrir börn en sagan segir að fullorðnir hafi ekkert minna gaman af henni. Leiksýningin verður kl. 16 í Skrúðgarðinum og rétt að minnast þess að kvenfélag Þorlákshafnar á allan heiður af því að fallegi Skrúðgarðurinn okkar sé yfir höfuð til.

Leikfélag Ölfuss sýnir Morð í Ráðhúsi Ölfuss

Leikritið Morð er eftir Ævar Þór Benediktsson verður flutt af ungum og efninlegum leikurum sem voru í leiklistarvali í Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Morð er uppfullt af góðum, svörtum húmor en það fjallar um morðingja sem hittast einu sinni í viku og ræða saman um glæpi sína. Sýningin hefst kl. 18 og er frítt inn.

ÓVÆNT ATRIÐI og draugasöguganga í Selvoginum

Tónlistarmaðurinn og vinur okkar allra, Jónas Sigurðsson hefur tekið fullan þátt í Hamingjunni við hafið. Hann kom fram sem leynigestur með Baggalút á stórtónleikum í Skrúðgarðinum og spilaði einnig með sinni gömlu lúðrasveit í skrúðgöngunni í gær. Hann ætlar, ásamt Þorlákshafnarbúanum Tómasi Jónssyni, einnig að vera með tónleika á Hendur í höfn kl. 19.30 í kvöld þar sem frítt verður inn og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Tónleikarnir verða í klukkustund og ættu því allir að hafa nægan tíma til að skella sér í Selvoginn og taka þátt í draugasögugöngu með Jóa Davíðs sem hefst kl. 21.
Veitingar verða afgreiddar á meðan á tónleikum stendur, borðapantanir í síma 4833440.