Þakkir að hátíðarhöldum loknum

Nú þegar hátíðin okkar „Hamingjan við hafið“ er að baki er við hæfi að færa þakkir. Það er vægt til orða tekið að halda því hér fram að hátíðin hafi tekist vel. Áætlað er að í heildina hafi milli 10 og 12 þúsund manns sótt okkur heim þessa daga og þegar mest lét hafi að minnsta kosti 4 til 6 þúsund manns verið hér saman komin við margskonar iðju.

Dagskráin var fjölbreytt og spannaði allt frá jóga í fjörunni yfir í tónleika fremstu listamanna þjóðarinnar og allt þar á milli. Allir fundu eitthvað við sitt hæfi og bærinn okkar skartaði sínu fegursta.
Við undirrituð viljum með þessum orðum þakka þeim sem gerðu þetta mögulegt. Að baki svona stórvirki liggja framlög frá mörgum og án þeirra aðkomu væri ekki hægt að hrinda þessu í framkvæmd. Verkin eru mörg; skreytingar, tiltekt, aðstoð við undirbúning listasýninga, fjárframlög fyrirtækja, tiltekt, frágangur, hugmyndavinna, hönnun og svo margt fleira.

Við viljum einnig hrósa starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir vasklega framgöngu og bæjarstjórn fyrir þá ákvörðun að efla enn frekar bæjarhátíðina okkar og hlúa þannig að menningu og mannlíf í okkar góða samfélagi.

Kæru íbúar til hamingju með þessa frábæru bæjarhátíð. Án ykkar hefði þetta ekki verið hægt. Með ykkur tökum við enn stærri skref í komandi tíð.

Hamingjan er og verður hér.
Elliði Vignisson bæjarstjóri og Ása Berglind verkefnastjóri á menningarsviði.