Hljómsveitin Dusty Miller í Hendur í Höfn


Tónleikaröðin á kaffihúsinu Hendur í Höfn í Þorlákshöfn heldur áfram og nú er komið að hljómsveitinni Dusty Miller sem mun stíga á stokk laugardagskvöldið 16. nóvember kl. 20.00.

Að þessu tilefni ætlar Dagný á Hendur í höfn bjóða upp á tveir fyrir einn af öllum drykkjum á milli 18-20 og því er fólk hvatt til að mæta tímanlega og koma sér vel fyrir áður en strákarnir í Dusty Miller hefja sinn leik.

Hljómsveitin Dusty Miller er tiltölulega ný á nálinni en þrátt fyrir ungan aldur sveitarinnar hefur hún verið afkastamikil, bæði á sviði og í hljóðveri og er von á þeirra fyrstu plötu á næstunni. Þeir sem skipa hljómsveitina eru Elvar Örn Friðriksson sem sér um söng og píanó, Kári Árnason á bassa, Tómas Jónsson á hljóðgervla og hljómborð, Aron Ingi Ingvarsson á trommur og Rögnvaldur Borgþórsson á gítar.

Á Facebook síðu Dusty Miller má heyra nokkur af lögunum sem munu prýða fyrstu plötu þeirra. Aðgangseyrir er 1.500 kr og nauðsynlegt að koma með reiðufé þar sem ekki er posi.