Það má með sanni segja að Hendur í höfn mun bjóða upp á ótrúlega tónlistarveislu í allt sumar með glæsilegri tónleikaröð sem var gerð opinber í síðustu viku.
Eins og Hafnarfréttir sögðu frá fyrr í vikunni verður Ásgeir Trausti með tónleika miðvikudaginn 18. júlí en þar með er sagan ekki öll því fleiri stórar sjörnur eru væntanlegar eins og Salka Sól ásamt nýrri hljómsveit, Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson ásamt bróður hans, Guðmundi Óskari bassaleikara með meiru. Þá verða einnig Þorlákshafnardæturnar Anna Margrét Káradóttir og Aðalbjörg Halldórsdóttir með sitthvora tónleikana ásamt frábærum meðleikurum. Síðast en ekki síst er það margkrýndur söngvari ársins, Valdimar Guðmundsson sem kemur fram ásamt gítarleikaranum Erni Eldjárn.
Miðasalan er hafin á einhverja þessara viðburða og síðustu fréttir af miðasölu á tónleika Ásgeirs benda til þess að nú fer hver að verða síðastur til að tryggja sér sæti á þessum einstöku tónleikum í okkar heimabyggð.
Ása Berglind, skipuleggjandi tónleikanna, segir að nándin við tónlistarfólkið og þetta hlýlega og fallega umhverfi hjá Dagný sé í raun þannig að það megi búast við því að upplifunin komist ansi nálægt því að hafa þetta frábæra tónlistarfólk í stofunni heima hjá sér og því einstakt tækifæri fyrir tónlistarunnendur.
Hún vill líka hvetja áhugasama til að bíða ekki lengi með það að ná sér í miða því sætaframboðið er takmarkað og það væri leitt að koma að fullu húsi og fá ekki miða.
Síðan Hendur í höfn opnaði á nýja staðnum hefur starfsfólkið haft í nógu að snúast við að taka á móti gestum, bæði Þorlákshafnarbúum, erlendu ferðafólki, hópum og einstaklingum sem fá sér bíltúr úr nágranna sveitafélögum og eru viðtökurnar framar björtustu vonum, segir Dagný Magnúsdóttir. Tónleikagestum sem vilja nýta tækifærið og fá sér að borða á Hendur í höfn er bent á að panta borð á hendurihofn@hendurihofn.is
Nánari upplýsingar um alla tónleikana er að finna á facebook síðu Hendur í höfn.