Lið Ægis gerði góða ferð í Reykjaneshöllina í dag þegar liðið sigraði Tindastól í fyrsta leik Lengjubikars karla í fótbolta.
Tindastóll byrjaði leikinn betur og komst yfir á tíundu mínútu leiksins en þá snéru Ægismenn leiknum sér í hag og skoruðu tvö mörk áður en hálfleiksflautan gall og staðan því orðin 2-1. Í seinni hálfleik hélt Ægis liðið áfram að gefa í og þriðja mark Ægis leit dagsins ljós á fimmtugustu mínútu og lið Tindastóls átti engin svör við sprækum Ægismönnum. Fannar Haraldur Davíðsson kórónaði svo sigur Ægis þegar rúmar tíu mínútur lifðu leiks og því sannfærandi 4-1 sigur Ægis staðreynd.
Athygli vekur að byrjunarlið Ægis í þessum leik er mjög ungt að árum en yngsti leikmaður liðsins er markvörðurinn Axel Örn Sæmundsson sem er 16 ára og sá elsti er framherjinn Matthías Björnsson en hann er 25 ára. Það verður því gaman að fylgjast með framhaldinu hjá Ægismönnum sem undirbúa sig nú fyrir átökin í 2. deildinni í sumar.
Markaskorarar Ægis í dag: Matthías Björnsson (29), Daníel Rögnvaldsson (41), Tómas Aron Tómasson (51) og Fannar Haraldur Davíðsson (78)