Matthías hetja Ægismanna gegn Njarðvík

matthias01
Matthías Björnsson átti virkilega góða innkomu.

Ægismenn fóru með sigur af hólmi þegar liðið heimsótti Njarðvík í  2. deildinni í fótbolta í gær. Lokatölur voru 2-3.

Matthías Björnsson kom inn á sem varamaður snemma leiks eftir að Andri Sigurðsson meiddist. Ekki leið á löngu þar til Matthías setti mark sitt á leikinn þegar hann skoraði glæsilegt mark með skalla eftir fyrirgjöf frá Jóhanni Óla Þórbjörnssyni. Staðan var 0-1 Ægismönnum í vil í hálfleik.

Njarðvík jafnaði metin í upphafi síðari hálfleik en á 70. mínútu komust Ægismenn yfir eftir mark frá Aroni Inga Davíðssyni. Einungis sjö mínútum síðar jafna Njarðvík metin í 2-2 og spennan orðin gífurleg.

Það var svo ekki fyrr en þegar þrjár mínutur lifðu leiks sem Ægismenn fá vítaspyrnu eftir að brotið var á Breka Bjarnasyni. Matthías fór á punktinn og tryggði 2-3 sigur gegn Njarðvík og reyndist hann hetja Ægismanna í þessum  leik.

Ægir situr nú í 6. sæti deildarinnar en á fimmtudaginn mæta þeir toppliði Gróttu á Þorlákshafnarvelli.