Ægismenn máttu þola grátlegt tap gegn Dalvík/Reyni á Dalvík í gær en lokatölur leiksins voru 2-1.
Heimamenn voru ekki lengi að skora fyrsta markið en það kom úr vítaspyrnu á 7. mínútu leiksins. Á 24. mínútu jafnaði síðan Sverrir Garðarsson metin fyrir Ægi og staðan 1-1 í hálfleik.
Ægismenn áttu fjölmörg færi og einnig dauðafæri til að komast yfir en lukkan var ekki okkar manna í þessum leik. Það voru síðan heimamenn sem komust yfir gegn gangi leiksins þegar tíu mínútur voru til leiksloka en það var síðasta mark leiksins og 2-1 tap Ægis fyrir norðan niðurstaðan.
Ægir situr í 8. sæti deildarinnar með 16 stig en þrátt fyrir það er einungis þrjú stig í liðið sem situr í 4. sæti. Næsti leikur Ægis er heimaleikur gegn toppliði Fjarðarbyggðar á Þorlákshafnarvelli næstkomandi laugardag klukkan 14.