Grétar Ingi: „Það er frábært að snúa aftur heim“

thor_portrait2012-3Grétar Ingi Erlendsson hefur snúið aftur heim og mun leika með Þór í Dominos deild karla í körfubolta í vetur en þetta staðfesti hann við Karfan.is í morgun. Á síðasta tímabili átti Grétar gott tímabil með Skallagrím en er nú kominn aftur til uppeldisfélagsins.

„Það er frábært að snúa aftur heim. Ég hef æft og spilað með Þór allan minn feril, að síðasta tímabili undanskildu, sem spannar einhver 23-24 ár. Það er bara ekki til betri tilfinning en að vippa sér í treyjuna og spila fyrir sinn heimabæ fyrir framan sitt heimafólk,“ sagði Grétar léttur í bragði þegar Hafnarfréttir slógu á þráðinn.

Aðspurður út í komandi vetur í Dominos deildinni er Grétar bjartsýnn. „Veturinn framundan er ansi spennandi og held ég að okkur eigi eftir að farnast vel. Við eigum fullt af hörkuduglegum strákum sem eiga eftir að stimpla sig vel inn í vetur.“

„Ég hlakka mikið til að fá að æfa og spila með þessum snillingum,“ segir Grétar að lokum en hann mun án efa valda miklum usla í teignum í vetur.