Ægismenn gerðu 1-1 jafntefli á móti ÍR þegar liðin mættust á Þorlákshafnarvelli í gær. Leikið var við fínustu aðstæður þrátt fyrir að komið sé í miðjan september mánuð.
Leikurinn var virkilega þýðingarmikill fyrir bæði lið þar sem Ægir er í baráttu um að halda sæti sínu í deildinni en ÍR á möguleika á að komast upp í 1. deild.
Gestirnir í ÍR áttu fyrsta mark leiksins á 8. mínútu en það kom beint úr aukaspyrnu. Það var þó ekki nema mínútu seinna að Aco Pandurevic, sem átti mjög góðan leik í gær, jafnaði fyrir Ægismenn eftir glæsilega sókn.
Harkan varð meiri í seinni hálfleik og fóru til að mynda 7 spjöld á loft hjá dómara leiksins í hálfleiknum og þar af 2 rauð spjöld enda mikið í húfi hjá liðunum. Jóhann Óli Þórbjörnsson var rekinn af velli eftir 2 gul spjöld hjá Ægi og Reynir Magnússon leikmaður ÍR sá rautt spjald undir lok leiks.
Þrátt fyrir ýmis færi í seinni hálfleik urðu mörkin þó ekki fleiri í leiknum og jafntefli því niðurstaðan. Sem þýðir að enn eru Ægis menn í baráttu um að halda sæti sínu og þurfa að vinna síðasta leik tímabilsins gegn Aftureldingu til að gulltryggja veruna í 2. deildinni að því gefnu að Njarðvík og Reynir sigri sína leiki.